149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:59]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég datt kannski aðeins út og inn með það hvenær verið var að vitna í ágæta grein Indriða Þorlákssonar í Kjarnanum eða hvenær þetta kom frá þingmanninum sjálfum. Umræðuefnið snýr að launatekjum í einstökum sveitarfélögum, bæjum og landsvæðum. Mögulegar skatttekjur eða veiðigjöld hafa áhrif á viðkvæm samfélög, segjum bara Bolungarvík. Ég held að það hafi komið fram hér fyrr í dag, hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni, að 29% launatekna í Bolungarvík komi úr sjávarútvegi.

Spurningin til þingmannsins er þessi: Telur þingmaðurinn þá raunverulega að þetta hafi engin áhrif á viðkomandi samfélög, á veltu og uppbyggingu atvinnulífs í viðkomandi sveitarfélögum? Um er að ræða inngrip í atvinnuveg sem heldur viðkomandi byggðarlagi gjörsamlega á floti — ég nefni sveitarfélög sem við þekkjum vítt og breitt um landið og á ákveðnum landsvæðum eins og Norðvesturkjördæmi. Á það hefur oft verið bent í atvinnuveganefnd og skýrsla borist um það þegar verið er að meta efnahagsleg áhrif veiðigjalda í kjördæminu.

Mér finnst þetta áhugavert vegna þess að þetta hljómaði eins og það hefði ekkert að segja fyrir viðkomandi sveitarfélög hver veiðigjöldin væru eða þess vegna skatttekjur eða hvernig menn taka á rekstri fyrirtækja í viðkomandi byggðum.