149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Til að halda því til haga taldi ég rétt að lesa hér upphátt grein Indriða H. Þorlákssonar af því að hún er mjög merkilegt innlegg í alla þessa umræðu, hvort sem er umræðuna núna eða umræðuna um veiðigjöld og sjávarútvegsstefnu okkar í heild sinni. Indriði gagnrýnir það í grein sinni að ekkert sé fjallað um þetta, engin rök fyrir þessu í greinargerðinni. Það eru engin fræðileg rök á bak við upphrópanir hér í þingsal frá hv. stjórnarþingmönnum og fleirum, hvorki í frumvarpinu né annars staðar. Það eru engin rök fyrir þeim upphrópunum að byggðir landsins fari á hliðina eða að útgerðarfyrirtæki af öllum stærðum séu á svo vondum stað að þau þurfi að fá þessa fyrirgjöf frá stjórnvöldum. Því að þetta er fyrirgjöf, það er verið að lækka veiðigjöldin verulega. Ef þetta væri í eðlilegu horfi væru veiðigjöldin mun hærri. Ég held að allir séu sammála um að það sé skrýtið að við sem þjóð seljum fiskinn okkar töluvert undir markaðsvirði.

Þá aðeins að þeim tillögum sem við höfum talað fyrir hérna. Í fyrsta lagi viljum við vísa málinu frá, einfaldlega til þess að við getum tekið þessa umræðu, til að við getum fengið fagleg rök, ekki bara upphrópanarök eins og hafa komið frá hv. stjórnarþingmönnum um að allt leggist á hliðina. (Forseti hringir.) Einnig má velta framhaldinu fyrir sér, en ég kem inn á það í seinni ræðu minni.