149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið og vil svara því svo að auðvitað hafa veiðigjöld áhrif á allt samfélagið. Eftir því sem við lækkum veiðigjöldin þeim mun minna kemur til alls samfélagsins. Ég held að hv. þingmaður hljóti að átta sig á því að þeim mun meiri afslátt sem við ákveðum að færa þessum eina aðila í þessari tegund af iðju — afslátt af því að greiða fyrir okkar sameiginlegu auðlind, afslátt af því að greiða eðlilega rentu af því að fá að veiða — erum við að missa af góðu tækifæri til að byggja upp flugvelli, sem ég veit að er sérstakt áhugamál hv. þingmanns. Við þurfum peninga til að byggja upp flugvelli.

Við þurfum líka peninga til að byggja upp vegi landsins, sem ég held að sé líka sérstakt áhugamál þingmannsins. Við þurfum líka fjármuni inn í okkar heilbrigðiskerfi, inn í okkar velferðarsamfélag, fyrir alla. Við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni höfum lagt það til að hluti af þessum fjármunum verði sérstaklega merktur byggðum landsins. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála um að það sé líka sanngjarnt.

En veiðigjaldið hefur ekki áhrif á það hversu margir fiskar veiðast úr sjónum. Við höfum líka lagt það til að við fáum meira fyrir hvern fisk, þannig að gerður verði tímabundinn samningur um að hluti af þessu verði boðinn upp. En það er ekki í núverandi tillögum. Þetta eru tillögur okkar þannig að líkt og Færeyingar fáum við eðlilegt verð fyrir þann fisk sem kemur úr sjónum, (Forseti hringir.) ekki verð eins og gæti mögulega tíðkast á svörtum föstudegi.