149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:08]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Hér höfum við verið með umræðu um frumvarp um veiðigjald síðustu tvo fulla daga, við erum á þriðja degi. Ég byrja kannski ræðuna í beinu framhaldi af andsvörum mínum rétt áðan við ræðu hv. þingmanns en þar komu svolítið fram grundvallarmálin varðandi veiðigjöld og annað, hvernig menn skilja áhrif þeirra á byggðir og slíka hluti, hvernig þetta seytlar inn í hagkerfið. Ég fékk satt að segja ekki alveg nægilega góð svör varðandi það að í ákveðnum sveitarfélögum þar sem sjávarútvegurinn er hvað sterkastur og hefur mest að segja um framvindu í viðkomandi sveitarfélagi og víða á landsvæðum eins og í Norðausturkjördæmi, sem er stórt svæði, hefur það mikið að segja hvernig gengur í sjávarútveginum. Mér finnst sjónarmiðin ekki alltaf hafa verið eftir mínu höfði sem snúa að því hversu mikilvægur hann er fyrir viðkomandi byggðir upp á byggðafestu og annað, að tryggja byggðina með öflugum sjávarútvegi og að það sé fullur skilningur á því hvernig staðið er að málum í honum. Það mátti skilja það á ræðu hv. þingmanns að veiðigjöld, hversu há sem þau væru, hefðu ekkert með það að segja hvernig viðkomandi byggðum eða íbúum þeirra vegnaði. Það finnst mér mjög sérstök nálgun.

Markmið hjá okkur á þingi þegar við ræðum frumvarp til laga um veiðigjald er væntanlega að við náum sem bestri sátt um þetta mikilvæga mál. En við sem hér sitjum verðum væntanlega seint fullkomlega sátt um hvernig standa eigi að gjaldtöku fyrir aðgengi að auðlindinni.

Þetta er búin að vera mjög fróðleg umræða og mismunandi skoðanir komið fram. Mér finnst hún kannski einna minnst hafa farið inn á efnahagslega þáttinn sem snýr að sjávarútveginum og hversu mikilvægur hann er vítt og breitt fyrir íbúa landsins. Það má geta þess að u.þ.b. 80% eða 4/5 af launatekjum í sjávarútvegi koma fram á landsbyggðinni. Hann er feikilega mikilvægur fyrir landsbyggðina í atvinnulegu tilliti og í raun fyrir byggðafestu eins og ég kom inn á áðan.

Frumvarpið sem við ræðum hér byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að við endurskoðun laga um veiðigjöld þurfi að hafa það að meginmarkmiði að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Eins og ég kom inn á er það kannski alltaf huglægt hvað fólk telur vera sanngjörn veiðigjöld og hvað sé sanngjarnt skattkerfi. Við höfum verið að fjalla um það síðustu daga og margvíslegar skoðanir eru á því hvað við teljum sanngjarnt. En meginmarkmið þessa frumvarps um veiðigjald sem liggur hér fyrir er annars vegar að færa álagningu veiðigjalds nær í tíma þannig að gjaldtaka sé meira í takt við afkomu greinarinnar. Álagning veiðigjalds verði þannig byggð á ársgömlum gögnum í stað tveggja ára, líkt og nú er. Hins vegar að gera stjórnsýslu með álagningu og innheimtu veiðigjalds einfaldari, skilvirkari, gagnsærri og áreiðanlegri. Frumvarpið byggir á því að áfram verði stuðst við gildandi fyrirkomulag um að reiknistofn veiðigjalds verði ákvarðaður á grundvelli svonefnds hagnaðar fyrir skatt en með ákveðnum lagfæringum á forsendum.

Hér er um flókið mál að ræða sem getur haft mikil áhrif á samfélagið vítt og breitt um landið. Sjávarútvegurinn er önnur af höfuðatvinnugreinum okkar Íslendinga og var með á síðasta ári um 8% af landsframleiðslu. Hin höfuðatvinnugreinin er ferðaþjónustan, sem var með 8,6% af landsframleiðslu á síðasta ári.

Samkeppnishæfni útgerðarinnar og vinnslunnar og áframhaldandi þróun er eitt af markmiðunum, að mér finnst. Þá er mikilvægt að veiðigjöld hafa ekki mikil og slæm áhrif á samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar í samkeppni við önnur lönd. Þetta er punktur sem mér finnst menn ekki hafa komið mikið inn á umræðunni og mér finnst mjög mikilvægur, að þegar við hugsum almennt um atvinnuvegi okkar Íslendinga sé samkeppnishæfni höfð að leiðarljósi þegar við erum í harðri samkeppni eins og við þekkjum.

Ein af breytingunum sem kemur fram í meðförum málsins er að ríkisskattstjóri kemur að málinu núna. Með framlagningu frumvarpsins er útreikningur veiðigjalds og álagning færð til ríkisskattstjóra og veiðigjaldanefnd lögð niður. Það er töluverð breyting og vonandi náum við því að menn hafi betra aðgengi að gögnum og það verði betri skil á gögnum í gegnum kerfi ríkisskattstjóra sem á þá hjálpa okkur að meta betur í rauntíma hvernig standa eigi að málum varðandi veiðigjöldin.

Í öllu þessu ferli á undanförnum mánuðum hafa ýmsir komið hér upp og talað um skort á samráði og sátt í vinnslu málsins. Þess er að geta að málið hefur verið unnið í góðri samvinnu við veiðigjaldanefnd, Fiskistofu og embætti ríkisskattstjóra, þá aðila sem þekkja þetta kerfi allra best. Jafnframt hafa ágallar þessarar gjaldtöku verið ítrekað í umræðunni undanfarin ár. Sjónarmið helstu hagsmunaaðila hafa einnig legið fyrir lengi. Það hefur komið fram í umræðunni að sjávarútvegsráðherra boðaði til 11 funda um allt land þar sem 600 manns komu að málum á opnum fundum og höfðu fullt aðgengi að ráðherranum til að tjá sinn hug í málinu. Atvinnuveganefnd hefur verið með málið til meðferðar í tvo mánuði og tekið það upp á 11 fundum í nefndinni og tekið á móti miklum fjölda gesta. Fullyrðingar um skort á samráði og umræðu um málið eru því einfaldlega rangar, svo því sé haldið til haga.

Í meðförum meiri hluta atvinnuveganefndar leggur meiri hlutinn til í sínum tillögum að hlutfall afsláttar til smárra og miðlungsstóra útgerðarfyrirtækja, sé litið er til stærðar, sé hæst af veiðigjöldunum eða 40% af fyrstu 6 milljónum veiðigjaldsins. Þannig hækkar afsláttur til smærri útgerðaraðila um 200–250 milljónir. Þarna hefur meiri hluti atvinnuveganefndar að leiðarljósi að tryggja byggðafestu í landinu þar sem smábátaútgerðin skiptir gríðarlega miklu máli vítt og breitt um landið, oft í smæstu byggðunum þar sem hefur kannski einna mest hallað undan fæti á síðastliðnum árum. Það er haft að leiðarljósi.

Það er hægt að tala vítt og breitt um þessi mál og margir punktar sem hægt er að fara í gegnum, en ég ætla að láta staðar numið núna og hlusta bara áfram á umræðuna í kvöld. Ég ætla að hafa þetta stutt að þessu sinni.