149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fátt í ræðu hv. þingmanns sem kemur á óvart annað en að það ágerist frekar orðfærið og fer í að draga upp orðskrípi eins og „gungur“, „druslur“ og tvinna það síðan í hinu orðinu saman við að nú þurfum við öll að standa saman og hafa öflugt samráð og vinna saman.

Hvernig dettur mönnum það í hug, hæstv. forseti, að ganga hér fyrir fram fyrir alþjóð, krossbölva nánast pólitískum andstæðingum fyrir afstöðu þeirra í einhverju umdeildu máli og kalla síðan í hinu orðinu eftir því að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir? Sú umræða er náttúrlega ekki boðleg, bara svo að það sé sagt.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann í tilefni orða hans hvort við séum ekki sammála um að veiðigjaldið, eins og til þess er stofnað á grundvelli ákvæða í lögum, sé gjald fyrir að sækja í sameiginlega auðlind. Erum við ekki sammála um að svo sé?

Þetta er grundvallarspurning um eðli veiðigjaldsins. Hingað til hefur það verið túlkað þannig að þetta sé nokkurs konar aðgangsheimild inn í sameiginlega auðlind og eigi að renna í sameiginlegan sjóð.

Þá hlýt ég líka spyrja hv. þingmann í framhaldi þeirrar spurningar, og ég vænti svars við henni sem og hinu: Hvert telur hann að hið eðlilega afgjald fyrir þá heimild eigi að vera? Honum verður mjög tíðrætt um að gjaldtakan eins og hún liggur fyrir í fyrirliggjandi frumvarpi sé allt of lág. Hér er gert ráð fyrir að gjaldhlutfallið af hverju kílói af nytjastofni sé 33%, sem í tilfelli t.d. þorsks gefur 13,80 á kíló.

Það væri mjög (Forseti hringir.) ágætt fyrir umræðuna að fá að vita hver þessi magíska tala, eins og stundum er sagt, sé í huga hv. þingmanns.