149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hæstv. fjármálaráðherra sem á líka, skilst mér, að hafa lagt stund á málvísindi ... (Sjútv.- og landbrh.: Fjármálaráðherra er erlendis.)— sjávarútvegsráðherra — geri það að megininntakinu í andsvarinu hvaða orðfæri ég nota. Ég vitnaði í fyrsta lagi beint í forseta Alþingis, í ræðu hans, og ég sagði meira að segja líka að ég tryði ekki að þeir væru það. Ég fullyrti ekki að þeir væru það.

En aðeins að efnisatriðum. Hæstv. ráðherra, það getur vel verið að þér þyki orðræðan ekki boðleg en þá segi ég á móti: Mér finnst frumvarpið ekki boðlegt. Ég talaði nefnilega um það í ræðunni að aðgangseyririnn að þessari takmörkuðu auðlind ætti miklu frekar að ákvarðast af þeim fyrirtækjum sem leggja það á sig að veiða fiskinn en einhverjum uppdiktuðum, ímynduðum réttlætishugmyndum okkar þingmanna.

Og fyrst hæstv. ráðherra talar um 33% hlutfallið er allt í lagi að vitna í Indriða H. Þorláksson sem vann fyrir ríkisstjórnina 2009–2013. Hann segir:

„Til samanburðar má taka fram að í lögum frá 2012 var stefnt að því að þegar þau væru komin að fullu til framkvæmdar myndu veiðigjöldin vera um 60% af rentunni eftir að smærri útgerðum hefði verið veittur afsláttur.“ — Eftir að smærri útgerðum hefði verið veittur afsláttur.

Hér hefur hins vegar ráðherra valið að taka meðaltal frá 2009, held ég, og fram á okkar dag. Inni í því eru þrjú ár þar sem voru ekki rukkuð eiginleg veiðigjöld, sem skekkir alla myndina.

Af hverju velja menn þetta tímabil en ekki eitthvað annað? Af hverju völdu menn þá ekki að gera það frá 2012? Hvaða mynd hefði birst þá, hæstv. ráðherra?