149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nam íslensku með fleira ágætu fólki sem m.a. hefur staðið í pontu í dag og haft ýmsar skoðanir á málum.

Ég fæ ekki svar við því frá hv. þingmanni hvert hann telur að hið eðlilega afgjald eigi að vera. Hann vísar til þess að láta markaðinn ráða því og væntanlega þá með uppboðsleiðinni. Og þá kemur að skemmtilega einkennilegri stöðu í umræðunni vegna þess að formaður Viðreisnar, sem er flutningsmaður að sama máli og hv. þingmaður, talar eingöngu um endurúthlutun á heimildum, ekki uppboð. Hv. þingmaður og fleiri í Samfylkingunni tala um uppboð og að það eigi að ráða gjaldinu. Þá spyr ég: Hvenær á að koma til þess? Það er ekki í tillögunni sjálfri minnst á uppboðið.

Ef það á að taka 5% og endurúthluta spyr ég: Hvernig ætlar hv. þingmaður að mynda gjaldið ef það á að endurúthluta til sömu aðila? Hvar á þá markaðurinn að koma inn í það? Á hann ekki að greiða fyrir það sem endurúthlutað er? Hvernig er hugsunin í því? Það kemur ekki fram.

Annar flokkurinn talar um uppboð meðan hinn talar bara um endurúthlutun. (Gripið fram í.) Í tillögunni stendur endurúthlutun. Þá spyr ég hv. þingmann: Hvernig á að reikna gjaldið með endurúthlutun til sömu aðila og 5% eru tekin af?