149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað því. Þau verða að svara fyrir sig. Ég held hins vegar að tvennt geti komið til. Annars vegar gangast þau algerlega inn á stefnu og skilyrði Sjálfstæðisflokksins. Í slíku tilfelli væri miklu heiðarlegra að gera það líkt og flokkur hv. þingmanns gerði þegar hann myndaði stjórn síðast með Sjálfstæðisflokknum og gaf vissulega töluvert eftir í ýmsum málum; í gjaldmiðlamálum, í fiskveiðistjórnarmálum og jafnvel landbúnaðarmálum. En hélt samt sem áður sínum sjónarmiðum fram í pistlum, í ræðum. Ég man að stundum tókust á þáverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra um gjaldmiðlamál. Það er heiðarleg nálgun að segja: Við tökum meiri hagsmuni fram yfir minni og víkjum þessu til hliðar í einhver ár á meðan ríkisstjórnin er starfandi — en við áskiljum okkur hins vegar rétt til að tala áfram fyrir málinu. Það fannst mér heiðarleg afstaða.

VG virðist hins vegar gera þveröfugt: Samsama sig með Sjálfstæðisflokknum og verða bara eins og kamelljón, verða bara Sjálfstæðisfólk.

Hin skýringin gæti auðvitað verið sú að Vinstri græn séu búin að kúvenda í málinu á þremur, fjórum árum. Það er heldur ekkert athugavert við það. Það mega allir skipta um skoðun ef þeir komast að því að þeir hafi haft rangt fyrir sér. En í því tilfelli myndi ég kannski ráðleggja ritstjórn Vinstri grænna að endurskoða heimasíðuna þannig að það sé þá a.m.k. samhljómur milli þess sem er talað í þessum ræðustól og þess sem má lesa á vg.is.