149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Margt áhugavert sem kom þar fram. Ég segi kannski á þeim nótum sem hv. þingmaður endaði að þótt ég sjái fyrst og fremst það jákvætt í þessu máli að gjaldtakan sé færð nær í tíma þá finnst mér lausnin óttalegt skítamix. Ég held að við eigum eftir að þurfa að koma að þessu máli aftur og aftur.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á, áhyggjur af samþjöppun. Ég hef kannski ekki hvað síst áhyggjur af þeirri samþjöppun sem er að verða í kringum sjávarútveginn, þ.e. út frá honum en ekki bara innan sjávarútvegsins sjálfs. Það er augljóst að það eru verulegar fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja í jafnvel alls óskyldum atvinnugreinum. Að mörgu leyti er sjávarútveginum kannski að taka við hlutverki gamalla viðskiptablokka í samfélaginu. Við virðumst alltaf þurfa að hafa einhverja viðskiptablokk. Hérna einhvern tímann var það kolkrabbinn og svo var það háhyrningurinn og bankarnir og hvað það heitir. Nú virðast sjávarútvegsfyrirtæki vera að taka ákveðna stöðu. Ég nefni nýafstaðna fjárfestingu í 25% hlut í Eimskipum. Það hefur verið töluvert fjárfest t.d. á heildsölustiginu. Ónefndum fjölmiðli er haldið úti af sjávarútvegi og svo mætti áfram telja. En vissulega er líka samþjöppun innan greinarinnar áhyggjuefni að einhverju marki. Það er auðvitað fylgifiskur kvótakerfisins.

Þess vegna hefði ég áhuga á því að heyra sjónarmið hv. þingmanns. Þurfum við í raun og veru ekki að aðgreina þessi kerfi? Að við séum með það sem við gætum kallað stóra sjávarútvegskerfið okkar, sem væri ákveðinn þungi kerfisins, þar sem stórútgerðin væri í frjálsu framsali og greiddi sanngjarnan hlut af auðlindarentu til samfélagsins, en síðan værum við með (Forseti hringir.) aðeins sameinaðri hluta, því kerfið er vissulega mjög flókið í dag, sem væri með meiri og (Forseti hringir.) betri byggðafestu bundna við sig. Það væri hugsað sem svo að (Forseti hringir.) byggðasjónarmiðin réðu sterkar för, getum við sagt, en í meginkerfinu.