149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég hef það fyrir reglu að sperra eyrun þegar hann tekur til máls um hin ýmsu mál. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður sjái fyrir sér, ef við getum orðað það svo, úrvalsdeild. Einhvern hóp allra stærstu fyrirtækjanna sem væru á öðrum forsendum en öll hin. Vissulega gæti það komið til greina. Það myndi t.d. hugsanlega auðvelda gjaldtökuna, þ.e. hafa gjaldtökuna á einhvern hátt mismunandi eftir stærð, burðum og búsetu og fleiri þáttum.

Það sem ég óttast við þetta er samt dreifingin og þess vegna hef ég verið að hugleiða þennan kost sem ég nefndi hér, svona bara með sjálfum mér, að ef við myndum lækka þetta þak myndum við kannski dreifa þessu aðeins. Því ef svo fer, sem við vonum, að okkar fiskstofnar eflist og stækki, hlýtur þessi spurning einhvern tíma að vakna í því ferli: Ætlum við að halda áfram að deila út stækkuninni, þ.e. veiðiaukningunni, í þennan sama hóp sem er starfandi núna? Á enginn að komast að þessu nema þeir sem eru þarna akkúrat núna? Þetta er spurning sem ég hef velt fyrir mér. Ég veit ekki hvort þetta kerfi sem hv. þingmaður nefnir hér myndi gera þetta auðveldara eða erfiðara.

En hvað fjárfestingar varðar þá er það jú kannski einn af fylgifiskum þess að það hefur gengið vel í útgerð og fiskvinnslu að stór og öflug fyrirtæki hafa verið burðug í að fjárfesta. Ég veit að nafni minn, hv. þingmaður, er svo mikill (Forseti hringir.) Sjálfstæðismaður að hann vill ekki kannski að við förum að leggja stein í götu þeirra (Forseti hringir.) eða segja fólki til hvar það megi fjárfesta og hvar ekki. En þetta er vissulega rétt og menn hafa haslað sér völl í mjög ólíkum greinum.