149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að mér er meinilla við að leggja á einhver boð og bönn um hvar menn megi fjárfesta. Mér finnst í sjálfu sér þetta vera birtingarmynd þess að arðsemi greinarinnar hefur einmitt verið mjög mikil. Sú arðsemi hefur birst í mjög miklum fjárfestingum inn í greinina sjálfa. Hið besta mál. Það hefur verið mikil og öflug framþróun innan greinarinnar og auðvitað líka mikil fjárfesting út fyrir greinina. Ég geri ekki neinar athugasemdir við það. En mér finnst það bera vitni um það að mögulega sé auðlindarentan mun meiri en af er látið og þar af leiðandi séu þessi stærstu fyrirtæki aflögufær um talsvert hærri gjöld en þau greiða.

Það kallast alltaf á þessi tvö ósamrýmanlegu sjónarmið, í raun og veru: Að sjávarútvegur sé rekinn með ýtrustu hagkvæmni í huga, með sem mestri arðsemi og þar af leiðandi aflögufær um sem hæst auðlindagjöld til samfélagsins fyrir að nýta þessa sameiginlegu auðlind okkar, og svo aftur byggðasjónarmiðið í sjávarútvegs- og fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Þar erum við í raun og veru í dag með alls konar bix, myndi ég kalla það. Við erum með fjölþættar leiðir til að tryggja einhvers konar byggðafestu, þær virka misvel. Ég held að við séum flest sammála því að byggðakvótinn sem slíkur er mjög vanmáttugt og hálfónýtt kerfi í raun.

Það sem ég er að velta upp hér, bara í andsvari við hv. þingmann, er hvort við verðum ekki einfaldlega að stokka þetta upp. Þetta væri mögulega tvískipt kerfi, við værum annars vegar með frjálst framsal með ýtrustu hagkvæmni að leiðarljósi en hins vegar kerfi sem er þá algjörlega aðskilið og ekki hægt að færa aflaheimildir á milli þessara tveggja kerfa og það síðarnefnda búi þá kannski við talsvert lægra auðlindagjald sem slíkt, en talsvert meiri byggðafestu og sterkari sjónarmið um að dreifa veiðiheimildum víðar um land.

Ég held að við hljótum á endanum að þurfa að taka þetta til skoðunar því ég held (Forseti hringir.) að við getum ekki haldið niðri og sett kvaðir á megingreinina um að það séu veikustu útgerðirnar sem ráði för hvað varðar framsal eða auðlindagjöld.