149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglisvert sem hv. þingmaður segir. Í sjálfu sér má segja að við höfum verið með tvö kerfi, þ.e. hið stærra og hið minna. Það hefur að vísu lekið á milli þeirra. Menn hafa selt sig út úr öðru og farið inn í hitt. Ég hef hitt menn sem hafa selt sig út þrisvar, fjórum sinnum. Þeir hafa byrjað að selja sig út úr stóra kerfinu, farið í minni útgerð, selt hana og farið í enn minni útgerð, selt sig út úr henni og eru nú á krókaaflamarki eða á strandveiðum. Í sjálfu sér ekkert við því að segja. Þetta er náttúrlega fylgifiskur þess kerfis sem við settum upp.

Síðan er það, eins og hv. þingmaður minnist á, það sem ég hef stundum kallað hið félagslega kerfi í sjávarútveginum sem er byggðakvótinn, sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar. Við höfum stundum talað um landbúnað, ég og hv. þingmaður, og stuðning við hann. Það má kannski meta þetta félagslega kerfi í sjávarútveginum upp á 9–12 milljarða, eftir því hvernig við verðleggjum þann kvóta sem til skiptanna er.

Sjávarútvegurinn hefur þannig líka þessa félagslegu hlið á sér, sem betur fer, vegna þess að við erum jú með því að tryggja byggðafestu í landinu, nákvæmlega á sama hátt og við erum að gera það með því að styrkja landbúnað í landinu. Við erum að tryggja að allt landið sé byggt. En auðvitað er þarna til staðar félagslegt kerfi.

Hvað hitt varðar er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að það er góður vitnisburður um að fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi séu vel rekin og hafi gengið vel að þau skuli hafa getað fjárfest í öðrum greinum.

En þá kemur aftur að því sem ég sagði áðan í ræðu minni, við hljótum á einhverjum tímapunkti og fyrr en seinna að þurfa að horfa til þess hversu mikil þessi samþjöppun er orðin. Við hljótum að þurfa að horfa til þess hver samkeppnisþátturinn er og hvað hann er ríkur í þessum (Forseti hringir.) rekstri. Við verðum bara að hafa kjark til þess á einhverjum tímapunkti að gera það, herra forseti.