149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Því er skemmst frá að segja að það verður engin sátt um að kollvarpa íslenskum sjávarútvegi. Þessi öflugasta atvinnugrein okkar og mikilvægasta útflutningsgrein er einfaldlega þeirrar gerðar og þess eðlis að það er engin tilviljun að fulltrúar Miðflokksins eru ekki með öðrum stjórnarandstöðuflokkum á þeirri breytingartillögu sem þar er lögð fram.

Ég kom stuttlega inn á þetta í ræðu minni áðan. Samfylkingin hefur talað fyrir hinni svokölluðu fyrningarleið lengi. Henni hafna ég algjörlega. Síðan talar Viðreisn fyrir því sem þau kalla markaðsleið. Það er auðvitað ekkert annað en fyrningarleið í einhverjum ballettbúningi. Þetta er bara önnur útfærsla á fyrningarleið.

Það verður aldrei nein sátt um þetta. Sjávarútvegurinn, jafn mikilvægur og hann er, er þeirrar gerðar að ef slíkar atlögur verða gerðar að honum verður brugðist til varna. Ég held að miklu mikilvægara sé að við færum okkur áfram á þeirri braut að laga þetta veiðigjaldaumhverfi útgerðarinnar. Það heldur því enginn fram, ekki einu sinni útgerðarmenn sjálfir, að veiðigjald eigi ekki að vera til staðar. Þetta snýst allt um sanngjarna og eðlilega nálgun sem atvinnugeirinn ræður við.