149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður vísaði til ballettsins. Ég veit að hann var mjög fimur til fóta þótt hann hafi kannski ekki lagt ballettinn fyrir sig sem atvinnugrein. Við erum báðir komnir frekar úr dansformi en höldum okkur þá frekar við það að dansa í orðum. [Hlátur í þingsal.]

Það er fleira í hugmyndunum frá stjórnarandstöðuflokkum þremur, raunar tveimur flokkum, Viðreisn og Samfylkingu, þó svo að Píratar fylgi með, sem er dálítið sérstakt. Það er að mínu mati sett upp með ákveðinn tilgang í huga. Það er sú hugmynd að taka hluta veiðiheimildanna og leggja fyrir í einhvern sérstakan sjóð. Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann horfi til þess með sama hætti og ég, að skynsamlegt sé að ríkisvaldið leggi skatta á burðarfyrirtæki vítt um land til þess að draga í einhvern sjóð sem stjórnmálamenn úthluti síðan til einhverra annarra þátta, hugsanlega í þessu byggðarlagi eða einhverju öðru. Hefur hann trú á því að það skjóti styrkari stoðum undir framtíð þeirra byggðarlaga sem þarna heyra undir eða gefi þá þeim sem standa í þeim atvinnurekstri vítt og breitt um allt land tilfinningu fyrir því að þarna sé verið að búa til fyrirkomulag sem menn hafi eitthvert traust á til lengri tíma?