149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni prýðisræðu. Mér fannst hv. þingmaður fara yfir stöðu í sjávarútvegi af miklu raunsæi og sérstaklega yfir stöðu minni og millistórra útgerða vítt og breitt um land. Hann vitnaði í skýrslu Deloitte fyrir rekstrarárin 2016 og 2017 og þar blandast inn í verkföll, óhagstæð ytri skilyrði, verðfall á mörkuðum og hækkandi olíuverð.

Hér erum við að reyna að koma til móts við þessar útgerðir. Á milli umræðna er verið að hækka frítekjumarkið, m.a. til að mæta þessum vanda sem leggst á útgerðir sem við köllum minni útgerðir og millistórar sem eiga erfitt með að ráða við þetta.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann styður þetta frumvarp en dró fram atriði frá áliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar, frá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni. Þar er talað um að tengja gjaldtökuna við afkomu og beita þrepaskiptum afslætti, sem væntanlega hefur sama tilgang og þessi breyting á milli umræðna, úr 20% í 40%, sem meiri hluti hv. atvinnuveganefndar leggur til.

Ég spyr hv. þingmann um útfærsluna og tölurnar í því, ef hann hefur metið það, hversu hátt(Forseti hringir.) hann myndi vilja fara með þessa þrepaskiptingu.