149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki með útfærslu á þeim tölum tilbúnar. Það sem ég vil kannski ná fram í umræðunni með því að koma inn á þetta, þar sem ég tel fullvíst að þó að þetta mál klárist núna verði tekinn annan snúningur á því áður en langt um líður, að við einbeitum okkur að því og setjum okkur í þann gír að gjaldtakan, hvernig veiðigjöldin leggjast á hvern útgerðarflokk, fyrirtækin innan hvers útgerðarflokks, taki mið af afkomu innan þess flokks. Það sé ekki ein tala sem sé deilt út yfir alla 1.350 aðilana, ef ég man rétt, sem eru í aflamarkskerfinu heldur sé horft til þess hvernig hver útgerðarflokkur standi, hver afkoman innan hans sé.

Það er meira prinsippið heldur en að ég sé með útfærðar þessar tillögur, enda komum við í 1. minni hluta ekki fram með breytingartillögu, þ.e. fulltrúi Miðflokksins, hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, sem situr í atvinnuveganefnd. Við komum ekki fram með breytingartillögu af því að við viljum sjá þessa hugsun komast inn í kerfið. Núna held ég að þetta liggi þannig að hámarksafsláttur hverrar útgerðar geti hæst farið í 2,4 milljónir, þetta er nú eftir minni en ég held að það sé ekki mikil skekkja í þessu. Útfærslan yrði einhvern veginn þannig að það yrðu, ef svo má segja, gripin þessi fyrirtæki sem eru á milli þess að vera í þessum alsmæsta flokki sem njóta vel þessarar útfærslu, upp í þau millistóru.