149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að fremst í röðinni sé það sem við erum kannski að hluta til að gera núna með þessu frumvarpi, þ.e. að stoppa þá þróun að samþjöppunin eigi sér stað vegna veiðigjaldsins. Það hefur verið algjörlega óþolandi að horfa upp á það undanfarin misseri að sérstaklega litlar og millistórar útgerðir séu heltast úr lestinni af því að þessi baggi er þeim of þungur að bera. Það er skref númer eitt.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan held ég að fyrirtæki muni lenda í rekstrarvandræðum í sjávarútvegi eins og hverjum öðrum iðnaði hér eftir sem hingað til. Það er ekkert óeðlilegt að sjávarútvegsfyrirtæki verði gjaldþrota. Þannig er lífið í viðskiptum. En svo er aftur á móti þessi þróun sem hefur orðið undanfarin misseri vegna þessara grimmu veiðigjalda sem hefur ýtt rækilega undir samþjöppun, sérstaklega á ákveðnum svæðum.

Ég held að til framtíðar litið sé þetta fyrsta skref sem nú er stigið, með því að bakka aðeins hvað gjaldtökuna varðar, jákvætt. En næstu skref verða auðvitað að vera þau, held ég, að fyrirsjáanleikinn verði eins mikill og nokkur kostur er. Það gildir það sama í sjávarútvegi og hverjum öðrum viðskiptum að fyrirsjáanleikinn er eitt það verðmætasta sem menn eiga, bara upp á áætlanagerð og annað að gera. Allar vangaveltur um þessa svokölluðu fyrningarleið, í hvaða búning sem hún er sett, draga úr allri slíkri festu í rekstrarumhverfi sjávarútvegsins.

Ég held að þetta sé ágætt skref sem er stigið með þessu máli og ég vona að það nái fram að ganga. En síðan þarf í framhaldinu að taka næsta snúning sem verður vonandi til þess fallinn að færa þetta nær því að almenn sátt geti skapast. (Forseti hringir.) En það er auðvitað nokkuð eftir svo sú vegferð verði farin. En þetta held ég að sé fremst í röðinni.