149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði, ég tel að meiri hlutinn hafi komið með gífurlega góða breytingu á milli umræðna. Mér finnst vel í lagt að fara í 40% úr 20% afslætti af fyrstu 6 milljónum af álögðu gjaldi. En með allar tölur, öll hlutföll, ekki síst þegar maður horfir á sveiflurnar í greininni og öll þau ytri skilyrði sem hafa áhrif á reksturinn, þurfum við stöðugt, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að vakta hvað við getum gengið langt í gjaldtöku og að vinna með þessum grundvallaratvinnuvegi.

Ég held að við getum ekki bara sagt hér og nú: Þetta eru tölurnar, þetta eru gjöldin, og svo sé það bara komið. Við þurfum stöðugt að sjá hvernig árar í atvinnugreininni. Það er það sem ég var að reyna að koma að. 33% eða 40% afsláttur er auðvitað ekki heilagt hlutfall. Hv. þingmaður ræddi áðan í andsvari við mig um fyrirsjáanleikann og stöðugleikann sem er um leið mikilvægt. Við erum að vinna okkur áfram í átt að meiri sátt um það hvað atvinnugreinin ræður við. Við erum að afkomutengja gjaldtökuna. Það er vel. Við erum að færa stjórnsýsluna nær í tíma og mögulega nær þetta jafnvægi. Við verðum hins vegar að meta mjög vel reynsluna af þessu.