149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur átt sér stað allnokkur og mikil umræða um frumvarp mitt til nýrra veiðigjalda. Þessi umræða hefur staðið í töluverðan tíma en þeir sem tekið hafa til máls hafa farið vítt um sviðið. Auðvitað er mismunandi afstaða, mikið er rætt um sátt og samkomulag. Vandinn liggur kannski í því að okkur gengur misjafnlega vel að koma hvert öðru í skilning um með hvaða hætti við teljum að sáttin náist, okkur gengur misjafnlega vel að koma því til skila í hverju þær breytingar felast sem við tölum fyrir.

Hér liggja fyrir tillögur um málsmeðferð frá atvinnuveganefnd sem lúta að því að styðja og styrkja við hið svokallaða frítekjumark eða persónuafslátt sem gagnast sérstaklega vel þeim sem greiða í neðri hluta veiðigjaldsins. Litlar útgerðir upp í þokkalega stórar útgerðir fá verulega viðbót við þann afslátt sem þar var reiknaður og fleiri smávægilegri tillögur liggja fyrir frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir mjög mikla og góða vinnu og ítarlega yfirferð um frumvarpið. Ég tel að nefndin hafi vandað mjög málsmeðferð og gefið þessu máli mjög góðan tíma. Það eru tveir mánuðir frá því að málið var lagt inn í þingið og mælt fyrir því. Fjöldi gesta hefur komið til fundar við nefndina og fjöldi umsagna hefur borist frá ólíklegustu þjóðfélagshópum og einstaklingum. Ég lagði málið líka fram með þeim hætti að ég fór til fundar við fólk og fékk mjög mikil viðbrögð við þeim fundum, málefnalega umræðu og gagnrýni og uppbyggilegar tillögur inn í umræðuna um veiðigjöld þannig að ég tel að málið hafi fengið ágæta umræðu í heild sinni.

Ég sakna hins vegar í þeirri umræðu sem hér hefur staðið efnislegrar umræðu um meginatriði frumvarpsins. Orðið hefur mun meiri umræða um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft. Ég geri ekki lítið úr þeirri umræðu en hefði gjarnan kosið að við tækjumst meira á um þær aðferðir sem lagðar eru til til þess að reikna afgjald af sameiginlegri auðlind.

Ég er sannfærður um að kerfið, eins og það er sett upp í frumvarpinu er til verulegra bóta á því kerfi sem fyrir er á allan hátt. Þetta eru miklar umbætur og ég tel raunar að margt í umsögnum allra flokka hér hafi leitt það m.a. í ljós að það eru ýmis grundvallaratriði í frumvarpinu sem er mikil og góð samstaða um, svo sem að reyna að teygja álagningu þessa útreiknaða gjalds sem næst í tíma, gera það gegnsærra, gera það áreiðanlegra við álagninguna, tengja það betur afkomu útgerðarinnar í landinu. Ég held að við getum öll verið alveg sammála um að það er til muna ábyggilegra og áreiðanlegra að hafa þann háttinn á við útreikning gjaldsins sem lagður er til í frumvarpinu en það fyrirkomulag sem fyrir var, að safna saman upplýsingum um afkomu í heildina í veiðum og vinnslu fyrir allt landið og af hálfu stjórnsýslustofnunar, Hagstofunnar. Þær upplýsingar eru síðan settar inn í stjórnsýslunefnd sem er veiðigjaldsnefndin skipuð þremur einstaklingum sem ráðherra setur og er allt hið mætasta fólk en hefur takmarkaða getu til að vinna úr þeim upplýsingum sem fram eru færðar. Ónákvæmni í meðferð upplýsinga hefur sýnt sig að vera töluvert mikil.

Hvaða stöðu svo sem maður kýs að taka í þessu efni er óumdeilt, og ég hef skynjað það í þeirri umræðu sem ég hef setið undir frá því að hún hófst, að það eru ákveðnir þættir sem eru sameiginlegir öllum þeim sem hér hafa tekið til máls. Ágreiningurinn liggur miklu fremur í því með hvaða hætti við viljum sjá stjórn fiskveiða í landinu skipað.

Grundvallaratriðið í frumvarpinu eins og það er lagt fram, og ég sé það bara staðfestast í afgreiðslu meiri hluta atvinnuveganefndar, er að veiðigjaldið er lagt á vegna aðgangs að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Afgjaldið á að standa undir sameiginlegum kostnaði sem ríkið hefur af því að gæta að og fara með auðlindina í formi hafrannsókna, eftirlits, rannsókna og fleiri þátta, auk þess sem gerð er krafa um að gjaldið skili líka ákveðinni hlutdeild í afkomu útgerðarinnar til ríkisins til viðbótar þessum fastakostnaði.

Við þau markmið er staðið í frumvarpinu. Meiri hluti atvinnuveganefndar staðfestir það í tillögugerð sinni til þingsins. Ég fagna því.

Í lok þessarar umræðu vil ég þakka öllum þeim sem lagt hafa sig fram um að vinna að frumvarpinu í nefndinni og öllum þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni um málið að þessu sinni.