149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna frumvarp til laga um veiðigjald. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, sem mér heyrist hv. þingmaður vera að ræða, sem er önnur löggjöf, stendur hins vegar, með leyfi forseta:(Gripið fram í.)

„Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Þetta er mjög einfaldur texti og skýr. (ÞKG: Svaraðu spurningunni.) Forseti. Virðulegur þingmaður er eitthvað vanstilltur, ég bið bara um leyfi og næði til að fá að ljúka mínu máli.

Hér stendur þetta mjög skýrum stöfum og þetta er sú hugmynd sem hv. þingmaður og Viðreisn er að reyna að fá breytt í lögum um stjórn fiskveiða. Við erum að ræða hérna lög um veiðigjald sem er allt önnur löggjöf.

Varðandi grundvallarspurninguna sem hv. þingmaður er með: Það er rætt um að bara sé um að ræða endurúthlutun veiðiheimilda, sem er mikið rétt, tillagan hljóðar þannig. En ég hef spurt og spurði t.d. hér í andsvörum fyrr í kvöld hv. þm. Loga Má Einarsson, formann Samfylkingarinnar: Hvernig á að innheimta veiðigjöldin eftir endurúthlutun til sömu aðila? Það hefur ekki verið lögð fram ein einasta hugmynd um það hvernig á síðan að reikna veiðigjöldin í framhaldinu af þessari tillögu. Það kann að vera ósköp einfalt hvernig það er gert. En meðan þær hugmyndir eru ekki kynntar gengur málið að mínu mati ekkert lengra en það kemst hér í kvöld eða undanfarna daga.

Ábyrgðin af hálfu Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata er að sannfæra stjórnarliða, ásamt öðrum í þjóðfélaginu, um ágæti eigin tillagna. Ég hef ekki orðið var við það í umræðunni að stjórnarliðar vilji ekki skilja það sem hér er lagt fram. Útskýringarnar, greinargerðin með tillögunum, (Forseti hringir.) hafa hins vegar af einhverjum ástæðum ekki náð í gegn.