149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:51]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta er alveg rétt ábending þó að ég haldi mig við það að mér finnst erfitt að fá ekki skýr svör. Það sem ég bendi á er að stjórnarandstaðan leitast við að beita stjórnina aðhaldi, hver sem hún er hverju sinni. Þá eru andsvör til þess að upplýsa umræðu. Þau eru til að liðka fyrir málum og þau eru til þess að við sjáum raunverulega vilja löggjafans. Við erum í 2. umr. í gríðarlega miklu máli og þá skiptir máli hver lögskýringargögnin eru. Þá skiptir m.a. máli að talsmaður og helsti framsögumaður frumvarpsins, hæstv. ráðherra, útskýri það nákvæmlega fyrir m.a. dómstólum því að það er mjög líklegt að þessi mál komi síðan til kasta dómstóla. Mörg mál sem tengjast sjávarútvegi gera það. Það skiptir máli að það verði til þess að upplýsa um hinn raunverulega vilja löggjafans. Það er mín hugsun og ég vona að menn taki því ekki illa en hvert sem þessu er beint — ég fer bara út í þingheim (Forseti hringir.) og beini þessu til ríkisstjórnarinnar en það skiptir máli að í svona mikilvægu máli komi í ljós hver raunverulegur vilji og skilningur löggjafans er.