149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég styð þá almennu hugsun að fólk svari spurningum sem til þess er beint. Ég lenti í því um daginn þegar ég reyndi að eiga orðastað við einn hv. þingmann stjórnarandstöðunnar að hann tók það mjög óstinnt upp að ég vildi fá svör við spurningum og sagðist ekki hafa vitað að hann yrði í munnlegu prófi. Ég hef aðra skoðun á andsvörum en sá hv. þingmaður.

Ég minni á að þetta er málstofa þingsins. Við erum hér 63 þingmenn að fjalla um lögin sem við setjum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson er bara einn af þeim 63 þingmönnum. Ef við ætlum að fara að grafa ofan í það hvernig við höfum svarað hvert öðru í andsvörum á það ekkert frekar við um hæstv. sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson en bara aðra hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðum. Þetta er málstofan þar sem við eigum að vera að skiptast á skoðunum og þá skiptir engu máli hvaða embætti við gegnum annars staðar en hér inni. Hér erum við að ræða saman og við greiðum öll saman (Forseti hringir.) atkvæði.

Lítum líka í eigin barm um hvernig við sjálf svörum andsvörum.