149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við erum að koma að leiðarlokum í þessu máli og vil ég sem framsögumaður málsins í atvinnuveganefnd og formaður atvinnuveganefndar segja nokkur orð í lokin.

Komið hefur fram að það eru eðlilega skiptar skoðanir um þetta mál, við öðru var ekki að búast. En ég get sagt það, og ég held að nefndarmenn heilt yfir í atvinnuveganefnd geti tekið undir það, að það urðu miklar og góðar umræður um þetta mál og komu góðar spurningar frá þeim fjölda gesta sem kom fyrir nefndina. Við höfðum þetta mál í tvo mánuði til ítarlegrar umfjöllunar í nefndinni og stóð þar ekkert út af varðandi óskir um gestakomur eða aðra meðferð málsins í nefndinni. Það lá fyrir með góðum fyrirvara hvenær til stæði að taka málið út.

Ég tel að það hafi verið mjög vönduð vinnubrögð í nefndinni og meðan á nefndarstarfi stóð komu engar kvartanir um að eitthvað væri ekki með réttum hætti í vinnu nefndarinnar. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að allt hafi gengið vel fyrir sig og við höfum öll, hvort sem það er meiri hluti eða minni hluti, sameinast í því að kalla fram sem flestar spurningar í málinu sem vöknuðu upp og reyna að draga fram svör gesta við þeim spurningum sem eðlilega komu fram varðandi þetta mál.

Ég tel að tillaga sú sem liggur fyrir, breytingartillaga frá meiri hluta atvinnuveganefndar, sé líka þess eðlis að það hafi legið fyrir allan tímann í atvinnuveganefnd að verið var að reyna að nálgast það að styrkja enn frekar með einhverjum hætti afslátt eða frítekjumark gagnvart litlu og meðalstóru útgerðunum og horfa til þess. Þessi niðurstaða náðist sem ég tel vera mjög hagfellda fyrir minni fyrirtæki.

Við heyrum úti í þjóðfélaginu að það eru deildar meiningar um þetta frumvarp hjá greininni sjálfri. Eins og við áttum von á heyrist gagnrýni úr ýmsum áttum og gagnrýni á að veiðigjöldin samkvæmt frumvarpinu verði allt of há. Öðrum finnst að veiðigjöldin séu að lækka og enn aðrir vilja fá meiri stuðning við hinar litlu og meðalstóru útgerðir þar sem hætta er á byggðaröskun og afleiðingu þess að verið hafi erfið rekstrarskilyrði og miklar sveiflur í greininni undanfarin ár.

En einhvers staðar verður að lenda og ég tel að með þessu frumvarpi séum við að nálgast mjög það sem búið er að vinna að allt frá árinu 2012, í raun frá því að lög um veiðigjald voru sett, þ.e. að tryggja meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika og jafna sveiflur með því að draga upplýsingar saman úr skattframtölum viðeigandi fyrirtækja og upplýsingum um aflaverðmæti tegunda hjá Fiskistofu, vinna úr þeim gögnum og leggja á gjöld miðað við hagnað útgerðarinnar hverju sinni. Tekið er meðaltal af þeim útgjöldum sem þar eru undir og aflaverðmætum. Álagningin byggist á því varðandi þann reiknistofn sem lagt er á 33,3% álag. Þau gjöld geta sveiflast til og geta orðið hærri eða lægri eftir afkomu greinarinnar hverju sinni.

Ég tel mjög brýnt að við sem þingheimur sameinumst um að standa með því að afkomutengja veiðigjöld, eins og ég held að hafi staðið upp úr flestum stjórnmálamönnum.

Ég skil vel áhuga margra hér inni á að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og sýnist sitt hverjum í þeim efnum. Ég hef alltaf verið hlynnt því að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið sjálft og sat í sáttanefnd í tæp tvö ár, á árunum 2009–2013. Því miður náðist ekki niðurstaða þar þó að það hafi verið þverpólitísk sáttanefnd.

En nú erum við að fjalla um veiðigjöld, við erum ekki að fjalla um lög um stjórn fiskveiða. Mikið hefur verið rætt hér um stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, sem er auðvitað mjög góð. Mættu allir flokkar taka hana upp óbreytta og gera að sinni. Kannski verður það einhvern tímann í komandi framtíð. En við Vinstri græn erum í samstarfi við tvo aðra flokka og við gerum okkur stjórnarsáttmála og höfum þar stefnu um að vinna að því að álagning veiðigjalda sé með sem réttmætustum hætti tengd afkomu greinarinnar hverju sinni, að öflug og fjölbreytt útgerð verði um sjávarbyggðirnar og að við styrkjum minni byggðarlög og eflum strandveiðar.

Ég vil enn og aftur þakka fyrir þá ágætu umræðu sem gengið hefur í sveiflum og línuritum eins og sjávarútvegurinn gerir. Umræður hér hafa verið svolítið eins og línuritið í sjávarútvegi varðandi hagnað, sveiflur upp og niður í þeim málum, gengissveiflur og annað því um líkt sem hefur áhrif á greinina. Ég heyri í hliðarsal að menn eru orðnir mjög spenntir að ljúka þessari umræðu og ég legg til að málið fari til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. Ég á von á því að við fáum einhverja gesti og milli 2. og 3. umr.

Enn og aftur: Takk fyrir þessa ágætisumræðu.