149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/59/ESB er varðar endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja verði felld inn í EES-samninginn.

Í tilskipun 2014/59 er mælt fyrir um viðbrögð og aðgerðir til að takast á við erfiðleika og áföll í rekstri lánastofnana og verðbréfafyrirtækja með það að markmiði að tryggja að slík áföll raski ekki fjármálalegum og efnahagslegum stöðugleika. Þannig er mælt fyrir um að slík fyrirtæki og stofnanir geri sérstaka endurbótaáætlun sem búi þau undir erfiðleika í rekstri. Jafnframt er kveðið á um að sérstakt stjórnvald eða stjórnsýslueining, sem nefnt er skilavald, útbúi sérstaka skilaáætlun sem það getur hrint í framkvæmd með skjótum hætti ef nauðsyn þykir til að takast á við áföll í rekstri stærri lánastofnana.

Þá er það einnig markmið tilskipunarinnar að lágmarka neikvæðar afleiðingar af erfiðleikum fjármálafyrirtækja ef til þeirra kemur með því að tryggja áframhaldandi kerfislega mikilvæga starfsemi viðkomandi fyrirtækis eða fyrirtækja en takmarka um leið hættu á að erfiðleikar fyrirtækjanna kalli á framlög úr ríkissjóði. Til að ná því markmiði er m.a. mælt fyrir um heimildir eftirlitsstofnunar til tímanlegra inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja og ef við á skilameðferð með aðkomu skilavalds. Ef nauðsynlegt þykir að fjármálafyrirtæki fari í skilameðferð getur skilavaldið nýtt sérstakan farveg til fjármögnunar á skilameðferð.

Virðulegur forseti. Innleiðing tilskipunar 2014/59 hér á landi kallar á lagabreytingar. Innleiðingin heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Hluti af ákvæðum tilskipunarinnar var lögfestur á síðasta löggjafarþingi með lögum nr. 54/2018, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Gert er ráð fyrir því að eftirstandandi ákvæði tilskipunarinnar verði innleidd með setningu nýrra heildarlaga um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Ráðgert er að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Í frumvarpinu verði kveðið á um reglur sem varða undirbúning og framkvæmd skilameðferðar og önnur atriði sem tengjast endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja.

Þar sem innleiðingin kallar á lagabreytingar var ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvæðum þingskapalaga ber að aflétta slíkum stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.