149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég er farinn að halda að það sé hlaupinn kveldúlfur í hæstv. utanríkisráðherra. Ég lagði fyrir hann einfalda spurningu, um hvaða tilgangi þetta þjónaði í þessum málum sem eru hér til skoðunar. Ég spurði hann líka af hverju hlutfallið væri þá ekki tilgreint í öllum tillögunum. Ég leyfði mér að benda á að það er ekki sama hvað menn telja með þegar menn velta fyrir sér gerðum Evrópusambandsins og upptöku. Menn geta valið sér viðmiðun. Frá Evrópusambandinu stafar gríðarlegur fjöldi þess sem kallaðir eru gerðir. Þær gerðir og ákvarðanir varða mjög afmörkuð mál, varða einstök fyrirtæki, jafnvel einstök héruð. Fjölda ólífulunda á akri á Ítalíu. Ef þetta er allt saman talið með til þess að búa til hlutfallið þá fær maður kannski þá tölu sem hæstv. utanríkisráðherra bendir á í greinargerðum með þessum þingsályktunartillögum.

Það sem ég var að reyna að segja var að með sömu aðferðafræði kemur í ljós að þessar gerðir allar gilda ekki í Evrópusambandslöndunum öllum. Það er bara hluti þeirra. Þessu var ég nú bara að vekja athygli á en hæstv. utanríkisráðherra upphóf mikinn reiðilestur af þessu litla tilefni, þessari einföldu spurningu.

Ég spyr hæstv. ráðherra þar sem hann gaf út ágæta skýrslu sem ég vitnaði til, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, í apríl 2018 þar sem nákvæmlega þessar sömu upplýsingar er að finna og eru dregnar fram í þessum greinargerðum: Er þá við því að búast að framvegis verði svona fræðsluhluti í greinargerðum með öllum þingsályktunartillögum almennt um EES-samninginn og Evrópusamstarfið?

Ég ætla ekki einu sinni að eyða orðum á orð hæstv. utanríkisráðherra um þessa nýju möntru sem er allt í einu komin upp um að við sem stundum erum kölluð Evrópusinnar séum að reyna að grafa undan EES-samningnum.

Svo finnst mér það þar að auki ekki sæma virðulegum og hæstv. utanríkisráðherra að kalla mig talsmann Evrópusambandsins. Ég er ekki talsmaður Evrópusambandsins, ég hef aldrei verið það og verð það sjálfsagt aldrei. Mér finnst þetta til minnkunar hæstv. utanríkisráðherra. Mér finnst þetta til minnkunar. Þetta hjálpar ekki gagnlegri og málefnalegri umræðu sem ég held að við ættum að reyna að hafa. Ég var einungis að spyrja: Hvaða tilgangi þjónar þetta? Svo er farið að segja: Ja, þið eruð alltaf að heimta upplýsingar og svo kem ég með góðar upplýsingar og þá viljið þið ekki sjá þær. Ég er að spyrja: Hvaða tilgangi þjónar þetta í samhengi þeirra gerða sem er verið að taka upp eða verða teknar upp í íslenskan rétt? Hvaða áhrif hefur þetta á meðferð í þinginu? Er þetta til þess fallið að sumir þingmenn muni segja: Nei, við getum ekki tekið þetta upp af því að þetta er 13,4%? Eða til að aðrir segi: Við verðum að taka þetta upp af því að þetta er 13,4? Hvaða efnislega þýðingu hefur þetta, að mati hæstv. ráðherra, á framgang þessara mála?

Mér finnst það sjálfsagt og mjög virðingarvert af hæstv. utanríkisráðherra að kynna EES-samninginn og tala um mikilvægi hans, hvar sem hann kemur. Ég tek undir allt sem hann segir um ágæti þess góða samnings. Ég held að við séum alveg sammála um að það síðasta sem íslensk þjóð ætti að gera er að grafa undan EES-samningnum og eiga það á hættu að við með einhverjum hætti glutruðum honum niður. En mér finnst það sem hæstv. ráðherra hefur til málanna að leggja við þessari saklausu fyrirspurn þar sem þetta er nýmæli í greinargerðum af þessu tagi sem fylgja svona þingsályktunartillögu, að ég leyfði mér að spyrja hæstv. ráðherra um tilgang þess — mér finnst viðbrögð hans við því vera sérkennileg.