149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Gerðir eru íslenska þýðingin á „acquis“ á ensku, sem er samheiti yfir tilskipanir, reglugerðir og lög Evrópusambandsins. Hv. þingmaður getur lagt þetta út með hvaða hætti sem hann vill en hann veit það mætavel að við höfum lent í vandræðum með EES-samninginn vegna þess að það hafa verið ekki réttar upplýsingar um hann. (JSV: Hvaða tilgangi þjónar þetta í þessu samhengi? Getur þú svarað þeirri einföldu spurningu?)Hv. þingmaður kallar hér fram: Hvaða tilgangi þjónar þetta? Ég hélt að ég hefði farið nokkuð nákvæmlega yfir það að það er sérstakt markmið — hv. þingmaður í öðru orðinu fagnaði því en í hinu orðinu gagnrýnir hann það og reynir að gera það tortryggilegt — að upplýsa um EES-samninginn. Hv. þingmaður getur ekki hlaupið frá því. Það vill svo til að ég hitti margt fólk og mun vonandi gera það um alla framtíð og ég veit alveg hvaða upplifun fólk hefur. Ég hef reyndar gert fyrirspurnir, bara svona mína eigin skoðanakönnun á því hvað fólk telur að við tökum mikið upp af gerðum Evrópusambandsins. Almenna svarið er 90%. Kemur það bara af himnum ofan? Nei, það er vegna þess að búið er að halda því að fólki.

Ég er mjög glaður, virðulegi forseti ef hv. þingmaður vill ekki vera kallaður talsmaður Evrópusambandsins en hann hefur nú, síðast þegar ég vissi, stýrt samtökum sem börðust fyrir inngöngu Íslands að Evrópusambandinu, (Gripið fram í.) hefur talað fyrir Evrópusambandinu linnulaust frá því að ég fór að fylgjast með honum áður en hann varð hv. þingmaður. Ef hann vill ekki kannast við það, þá er það allt í lagi og ég fagna því.

En það er ekki bæði hægt að segja að við fögnum því að það sé upplýst út á hvað EES-samningurinn gengur og kvarta svo undan því þegar það er gert. Það gengur ekki upp.

Hv. þingmaður benti réttilega á að þessi skýrsla sem hann vitnaði til væri prýðisgóð. Hún var m.a. gerð í tvennum tilgangi. Annars vegar er hún áætlun okkar um bætta hagsmunagæslu í EES-samstarfinu en um leið, eðlilega, er þar upplýst út á hvað EES-samningurinn gengur. Ég hef ekki fengið neinar efnislegar athugasemdir við það sem fram kemur í þessari skýrslu. Ef það er eitthvað rangt í henni er sjálfsagt að leiðrétta það. En það er nokkuð langt síðan hún kom út og ég vona að hún sé vel lesin.

Ef ég hef misskilið hv. þingmann svona fullkomlega og hann er bara að fagna því að hér sé komið fram með upplýsingar þá er ég mjög ánægður með það. Því verður haldið áfram vegna þess að það er hætta á því að ef það eru uppi rangar upplýsingar um EES-samninginn að við gröfum undan honum og áttum okkur ekki á mikilvægi hans. Og það er sérstök stefna íslenskra stjórnvalda að upplýsa um EES-samninginn.

Ég verð að viðurkenna að það má eiga von á allra handa gagnrýni þegar maður er í starfi utanríkisráðherra. En ég átti ekki von á þeirri gagnrýni að hér væri að bera fram upplýsingar sem nýtast almenningi, og ég tala nú ekki um hv. þingmönnum sem fara með málið. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmyndaflug í það.

Nú veit ég ekki alveg á hvaða stað hv. þingmaður er núna, hvort hann sé ósáttur við að fá upplýsingarnar eða ekki, en mér þykir leiðinlegt ef hann er ósáttur við að fá upplýsingarnar því að hv. þingmaður mun þurfa að búa við það að fá upplýsingar um EES-samninginn og annað það sem snýr að utanríkismálum og hagsmunum Íslendinga. Það er algjört markmið að reyna að koma með sem bestar upplýsingar sem eru byggðar á staðreyndum þannig að hv. þingmenn, ég tala ekki nú ekki um þjóðin, geti mótað sína afstöðu út frá staðreyndum en ekki röngum upplýsingum sem jafnvel eru bornar fram til að ná einhverjum pólitískum markmiðum, sem í þessu tilfelli voru þvert á hagsmuni íslensku þjóðarinnar.