149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gagnrýnin á upplýsingaflæði um EES-samninginn heldur áfram frá hv. þingmanni. Ég bara gengst við því, virðulegi forseti, að vera fullkomlega sekur í þessu máli. Ég er bara að reyna að upplýsa um út á hvað EES-samningurinn gengur og setja það í eitthvert heildarsamhengi.

Hv. þingmaður spyr hvort það komi einhverjar fleiri upplýsingar í framhaldinu. Ég verð að valda hv. þingmanni vonbrigðum: Já, það er ekkert útilokað. Ég gengst við því að vilja upplýsa bæði þingheim og þjóð um EES-samninginn og annað sem snýr að hagsmunum Íslands. Og þá mun ég byggja þær upplýsingar á staðreyndum og reyna að vanda þær eins vel eins og mögulegt er. Það er engin stefna um að takmarka það með neinum hætti. Það er áhugavert sjónarmið hv. þingmanns um að þetta eigi ekki heima þarna heldur einhvers staðar annars staðar. Ég hlusta á það. En ég get ekki lofað því að upplýsingaflæðið verði stöðvað þrátt fyrir þessa gagnrýni, svo það sé sagt. Hv. þingmaður má eiga von á meiri upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um hagsmunamál Íslendinga, jafnvel í greinargerðum með málum frá ráðuneytinu. Ég hvet hins vegar hv. þingmann til að vekja athygli á þessari gagnrýni sinni sem víðast og láta sem flesta vita af þessu, að hv. þingmaðurinn sé að gagnrýna þann sem hér stendur fyrir að reyna að upplýsa þing og þjóð um það sem máli skiptir varðandi hagsmuni þjóðarinnar.