149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er afar klókur stjórnmálamaður. (Gripið fram í.) Ég er búinn að reyna að fá hann til að svara einfaldri spurningu en það er algerlega lífsins ómögulegt.

Ég hef ekki með nokkrum einasta hætti verið að gefa í skyn eða leggja til að dregið verði úr upplýsingaflæði um EES-samninginn, ekki einu orði. Ég spurði hvaða tilgangur væri með þessu, að setja þetta í þessa greinargerð. Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því. Hann hefur heldur ekki svarað því af hverju þetta er þá ekki í öllum málunum sem fyrir þingið voru lögð í einni kippu. Hann hefur heldur ekki svarað því hvort þetta verði framvegis fastur liður í upplýsingagjöf til almennings í gegnum þennan vettvang.

Jafnframt verð ég þá að spyrja: Er þetta það mikilvægasta sem hæstv. utanríkisráðherra hefur fram að færa í Evrópumálum varðandi EES-samninginn og Evrópumálin? Að birta hlutfallsútreikning? Ja, þá er ég hissa. Ég hélt að það væru stærri og alvarlegri mál sem væri brýnt að fræða og upplýsa um því þegar allt kemur til alls skipta þessar hlutfallstölur engu máli heldur hin raunverulegu áhrif sem EES-samningurinn hefur og, ef út í það er farið, hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu myndi hafa. Þar skipta prósentutölurnar engu máli fyrir almenning eða framtíð þjóðarinnar.