149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

340. mál
[23:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018, en þar er mælt fyrir um ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins 2017/899 um að notkun tíðnisviðsins 470–790 MHz skuli felld inn í EES-samninginn.

Tíðnisviðið frá 470–790 MHz, oft nefnt UHF-tíðnisviðið, er notað fyrir háhraða farnetsþjónustu, þráðlaus tæki til fjölmiðlunar og stafrænna sjónvarpsútsendinga. Á heimsráðstefnu Alþjóðafjarskiptasambandsins í nóvember 2015 var samþykkt tækni- og regluumhverfi fyrir notkun 700 MHz-tíðnisviðsins fyrir háhraða farnetsþjónustu. Einnig var samþykkt að 470–694 MHz tíðnisviðið skyldi notað fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar á svæði 1 en á því svæði eru Evrópa og Afríka.

Ísland er komið lengra en flestar Evrópuþjóðir í því að losa umrætt tíðnisvið þannig að úthluta megi því til notkunar fyrir háhraða farnetsþjónustu. Áður en notkun þessarar þjónustu verður hafin verður notendum þráðlauss búnaðar til fjölmiðlunar og annarrar miðlunar tilkynnt um þær áætlanir. Þessir aðilar hafa heimild til að nýta hluta tíðnisviðsins á víkjandi heimildum þar til háhraða farnetsþjónusta hefst á tíðnisviðinu.

Virðulegi forseti. Innleiðing ákvörðunar 2017/899 hér á landi kallar á lagabreytingar. Gera þarf breytingar á fjarskiptalögum, nr. 81/2003, til að innleiða ákvörðunina. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær frumvarp til slíkrar innleiðingar verður lagt fram á Alþingi. Engin fjárhagsleg skuldbinding felst í innleiðingu ákvörðunarinnar.

Þar sem innleiðing kallar á lagabreytingar var ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvæðum þingskapalaga ber að aflétta slíkum stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.