149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

342. mál
[23:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 910/2014.

Markmið reglugerðarinnar er að koma á rafrænum samskiptum milli aðildarríkja ESB og jafnframt að tryggja öryggi rafrænna viðskipta innan Evrópu. Fyrirtæki og einstaklingar eiga að geta notast við rafræn skilríki heimalanda sinna til að nota opinbera þjónustu innan Evrópu. Hún býr til innri markað fyrir rafrænar undirskriftir og aðrar tengdar rafrænar aðgerðir með því að tryggja að þær hafi sama gildi og viðskipti á pappír og að hægt sé að notast við þær í samskiptum á milli ríkja.

Forveri reglugerðarinnar, tilskipun 1999/93, var innleidd í íslensk lög með lögum nr. 28/2001, um rafrænar undirskriftir. Í þeirri tilskipun var kveðið á um rafrænar undirskriftir og starfsemi vottunaraðila. Með nýju reglugerðinni er gildissviðið víkkað út með ákvæðum um auðkenningu, vottun, traustþjónustu, tímastimplun, rafræn innsigli, vefsíður, rafræn skjöl og um rafræna þjónustu á milli landa. Í reglugerðinni er einnig komið á auðkenningarskipan sem hefur þann tilgang að auka samvirkni rafrænna samskipta milli landa.

Auk þessa fjallar reglugerðin um traustþjónustu sem er aðgengileg almenningi og hefur áhrif á þriðja aðila.

Virðulegi forseti. Innleiðing reglugerðar nr. 910/2014 hér á landi kallar á lagabreytingar. Setja þarf ný lög um rafrænar undirskriftir í stað laga nr. 28/2001. Starfshópur á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins hefur unnið að gerð slíks frumvarps sem fyrirhugað er að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Í þingmálaskrá kemur fram að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hyggst leggja frumvarpið fram í febrúar 2019.

Þar sem innleiðingin kallar á lagabreytingar var ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvæðum þingskapalaga ber að aflétta slíkum stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvæðinu felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.