149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 um breytingu á XXII. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

343. mál
[23:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018, sem mælir fyrir um að tvær gerðir Evrópusambandsins á sviði endurskoðunar verði teknar upp í EES-samninginn.

Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56 eru gerðar breytingar á svokölluðu áttundu félagatilskipun Evrópusambandsins sem inniheldur reglur um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga. Með breytingunni er kveðið á um frekari samræmingu reglna um aðila sem annast lögboðna endurskoðun í því skyni að gera reglurnar gagnsærri og fyrirsjáanlegri. Í tilskipuninni er þannig kveðið á um samræmingu reglna hvað varðar skilyrði fyrir viðurkenningu og skráningu, reglur um óhæði og hlutlægni og opinbert eftirlit með aðilum sem annast lögboðna endurskoðun.

Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 537/2014 er kveðið á um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum með það að markmiði að efla trúverðugleika á endurskoðuðum reikningsskilum slíkra eininga.

Virðulegi forseti. Innleiðing tilskipunar 2014/56 hér á landi kallar á lagabreytingar. Unnið er að gerð frumvarps til nýrra heildarlaga um endurskoðendur í stað núgildandi laga nr. 79/2008 þar sem ákvæði tilskipunar verði innleidd. Innleiðingin mun hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á eftirliti með endurskoðendum og leiða til aukins kostnaðar við eftirlitið. Eftirlitsgjöld endurskoðenda munu hins vegar standa undir þeim kostnaði. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett á laggirnar óformlegan starfshóp skipaðan fulltrúum endurskoðendaráðs, Fjármálaeftirlitsins og Félags löggiltra endurskoðenda sem vinnur að gerð lagafrumvarps sem sett verður í opið samráðsferli. Gert er ráð fyrir að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leggi frumvarpið fram á yfirstandandi löggjafarþingi.

Þar sem innleiðingin kallar á lagabreytingar var ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Samkvæmt ákvæðum þingskapalaga ber að aflétta slíkum stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.