149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

traust og virðing í stjórnmálum.

[15:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Spurningin er sáraeinföld: Hvað gerum við nú?

Við berum öll sameiginlega ábyrgð á því að Alþingi Íslendinga sé starfhæft og geti unnið þjóðinni gagn, að við séum manneskjur sem bera virðingu fyrir starfi sínu og fólkinu sem kaus okkur, en ekki síst að fólk geti borið virðingu fyrir okkur.

Til þess þurfum við m.a. að tileinka okkur gildi sem komu fram á þjóðfundinum 2010, heiðarleika, mannréttindi, jafnrétti, ábyrgð og virðingu.

Ég er ekki kominn hingað upp í ræðustól til að varpa ljósi á pólitískan ágreining milli flokka eða benda á það sem mér þykir mega betur fara við stjórn landsins. Auðvitað verðum við að geta átt áfram beinskeyttar umræður um það. En í dag tel ég nauðsynlegt að við byggjum brýr milli þeirra sem raunverulega vilja breyta menningunni, standa gegn mannfyrirlitningu, kvenfyrirlitningu og fordómum.

Ég tel að hæstv. forsætisráðherra geti leikið stórt hlutverk í því samtali sem hér þarf að eiga sér stað. Hún hefur þann trúverðugleika sem þarf til þess og ég treysti henni til þess.

Ég veit, herra forseti, að ég hef margoft vitnað í stjórnarsáttmálann einmitt til að draga upp þá mynd að það fylgi ekki alltaf gerðir orðum. En hér í dag vil ég þó í einlægni nefna hann vegna þess að ég tel að í honum felist mikilvæg yfirlýsing um það samstarf sem þarf að eiga sér stað milli fólks til að koma okkur úr þeim þungu aðstæðum sem við erum í í dag.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni erum til í að leggja töluvert á okkur til að okkur takist þetta erfiða verkefni saman.