149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

traust og virðing í stjórnmálum.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um það hvernig við getum sem þingmenn tekið þátt í því verkefni saman að standa vörð um þau gildi sem við viljum að einkenni samfélag okkar.

Við fögnuðum 100 ára afmæli fullveldis um helgina. Ég tel að það hafi verið gott tækifæri til að velta fyrir sér þeim gildum sem við viljum sem samfélag hafa að leiðarljósi. Þá vil ég nefna gildi á borð við lýðræði, fjölbreytni og virðingu fyrir réttindum allra. Sú orðræða sem hefur verið gerð að umtalsefni á undanförnum dögum var dapurleg, einkenndist af kvenfyrirlitningu og fordómum gagnvart ýmsum hópum, hvort sem er hinsegin fólki, fötluðu fólki eða öðrum hópum. Slík orðræða er í senn óverjandi og óafsakanleg.

En nú spyr hv. þingmaður: Hvað gerum við nú? Ég tel mjög mikilvægt að við höfum sem þingmenn sett okkur siðareglur, sem ég tel góðar. Ég tel mjög mikilvægt að forsætisnefnd hafi ákveðið að taka á málinu með þeim hætti sem hún hefur gert, og sú yfirlýsing verður birt hér á eftir, að vísa málinu áfram og kalla til þá ráðgefandi siðanefnd sem við Alþingi höfum ákveðið að skipa.

Það skiptir nefnilega gríðarlegu máli að Alþingi bregðist við, virði þá ferla sem við höfum sjálf sett okkur og taki þær siðareglur sem við höfum sjálf sett okkur saman til umræðu og hvernig við getum tryggt að þeim verði betur fylgt í framtíðinni.

Ég tel að allt þetta mál sýni okkur að við berum sameiginlega ábyrgð á því núna að fara yfir þær reglur, taka þær til umræðu í okkar hópi og tryggja að við getum sameiginleg hafið þessa mikilvægu samkomu fyrir samfélagið aftur til vegs og virðingar.