149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

þriðji orkupakki EES.

[15:27]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir yfirlýsingu þingforseta okkar í upphafi þingfundar. Ég treysti því að hann gæti að vegsemd þingsins, virðingu og ekki síst vinnustaðamenningu.

Pólitíkin, herra forseti, lifir og þarf að halda áfram og ekki síst lýðræðislegt aðhald okkar í stjórnarandstöðu. Það er að mínu mati grafalvarlegt þegar þingið bíður með að afgreiða mál sem snertir rétt neytenda og samkeppni og tryggir að mikilvægasti alþjóðasamningur sem við Íslendingar höfum undirgengist virki, að hann verði ekki settur í uppnám eða óvissu. Þar á ég við EES-samninginn sem hefur gert ótrúlega mikið fyrir heimilin í landinu og fjölskyldurnar. Það er mikilvægt að samfélagið allt í heild sinni, einstaklingar sem fyrirtæki, sjái að hann geti haldið áfram, að honum sé ekki ógnað með augljósum átökum innan Sjálfstæðisflokksins. Það er rétt að þegar maður les blöðin og hlustar á viðtöl sér maður að stakir þingmenn og ekki síður ráðherrar munu að öllum líkindum greiða atkvæði gegn þriðja orkupakkanum þegar hann kemur inn í þingið.

Ég verð að segja að á dauða mínum átti ég von en ekki því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi byrja að grafa undan EES-samstarfinu. Þetta er háalvarlegt mál, þetta er pólitískt mál. Þess vegna vil ég nýta tækifærið hér í óundirbúnum fyrirspurnum og koma með tvær mjög einfaldar fyrirspurnir sem ég vona að verði svarað af því að það hefur verið lenska að einföldum spurningum hefur ekki verið svarað.

Fyrri spurningin er til hæstv. utanríkisráðherra: Hvenær mun hann leggja þriðja orkupakkann fyrir þingið? Hvenær? Það á að vera hægt að svara því. Og seinni spurningin er: Mun hæstv. utanríkisráðherra beita sér fyrir því að stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans verði aflétt?