149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

þriðji orkupakki EES.

[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni EES-samninginn, sem ég held að sé mjög gott. Ég held að afskaplega mikilvægt sé að við ræðum EES-samninginn og þess vegna setti ég m.a. af stað hóp undir forystu Björns Bjarnasonar sem fer akkúrat yfir reynslu okkar af samningnum og kosti og galla. Jafn mikilvægt og það er, og við þurfum að halda því áfram, að gæta hagsmuna okkar í því samstarfi eins og öllu öðru var það því miður veikt á sínum tíma þegar við fórum í aðlögunarviðræður við ESB, en við skulum vona að það hafi ekki komið að sök. Sömuleiðis hefur verið mjög mikið af rangfærslum í umræðunni um EES-samninginn. Það er orðið alveg sérstakt vandamál. Hv. þingmaður þekkir það, þeir sem hafa verið æstastir í vilja sínum að ganga í Evrópusambandið hafa ekki heykst á því að tala hann niður.

Við erum komin í svolítið sérkennilega stöðu þegar þeir sem eru andstæðingar þess að við göngum í ESB eru farnir að trúa þeim meginorðum og farnir að nota þær rangfærslur, sérstaklega í umræðunni þar sem þeir eru margir hverjir, þó ekki allir, jafnvel að tala fyrir því að við göngum úr EES-samstarfinu. Þetta er mjög alvarleg staða og hún smitast yfir í mjög margt.

Mikið er af málefnalegum athugasemdum og áhyggjum í tengslum við þriðja orkupakkanum sem er mikilvægt að svara málefnalega með rökum og fara nákvæmlega yfir. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera í ríkisstjórninni. Á sama hátt skiptir miklu máli að ekki séu einhverjar ranghugmyndir um EES-samninginn eða þriðja orkupakkanum.

Hv. þingmaður þekkir að þetta er á þingmálaskrá í vor og það er það sem við erum að vinna að og hefur legið fyrir lengi.