149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

þriðji orkupakki EES.

[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Þá var bara grímunni kastað. Auðvitað er hv. þingmaður ekki að nota þetta mál í neinum pólitískum hráskinnaleik. Auðvitað ekki. Hverjum dettur það í hug? Hver fékk þessa hugmynd? Nei, virðulegi forseti, ég bið hv. þingmann að halda aðeins aftur af sér. Þetta er stórmál. Hér er um að ræða EES-samninginn. Ég held að þegar öll ábyrg stjórnvöld fá málefnalegar athugasemdir, áhyggjur fólks út af einhverju sem snýr að samningnum, skoði þau það mál sérstaklega. (ÞKG: Á ekki að hlusta á …?) Svo getur vel verið að einhverjir hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni geti ekki haldið aftur af sér og þurfi að reyna að búa til einhvern pólitískan hráskinnaleik úr þessu og segja að þetta sé eitthvert innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins og þá er það bara þannig. Það raskar ekki ró okkar. Það sem við gerum og erum búin að segja er einfaldlega þetta: Það verður farið yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram. Ef það er eitthvað sem við þurfum að horfa sérstaklega til út af þessu máli eða öðru innleiðingarmáli munum (Forseti hringir.) við sjá hvað við þurfum að gera til að lágmarka einhverja þá hættu sem gæti verið uppi. Það er sú vinna sem við erum að fara í og við látum hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni, jafn góðir og skemmtilegir og þeir eru, ekki trufla okkur í þeirri vinnu. (ÞKG: Óvissa … Sjálfstæðisflokksins.)