149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum í annað sinn atkvæði um veiðigjöld á þessu ári í ósætti og án þess að eðlilegt samráð hafi átt sér stað í meðförum þess. Píratar eru mótfallnir þessu frumvarpi, m.a. vegna skorts á samráði en einnig vegna þess að það auðveldar fjársterkum útgerðum að færa hagnað sinn frá veiðum til vinnslu. Ekkert hefur verið gert til að laga þær bakdyr, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir þar um. Þetta skekkir samkeppnisstöðu og er ekki til þess fallið að auka traust í þessari atvinnugrein.

Við greiðum því atkvæði gegn frumvarpinu. Við erum með á frávísunartillögu gagnvart því, en við munum að einhverju marki sitja hjá í þeim tillögum meiri hlutans sem okkur þykja gera þetta aðeins skárra fyrirbrigði.