149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjumst gegn þessu frumvarpi og viljum að því verði vísað frá og þess freistað að ná betri sátt um málið. Það eina sem mun gerast við það er að útgerðin greiði 10–12 milljarða í veiðigjöld á árinu 2019 en ekki 17 milljarða, eins og meiri hlutinn leggur til. Og hún ræður við það.

Frumvarpið ber nefnilega í sér miklu meiri breytingar en stjórnarmeirihlutinn vill vera láta. Sem dæmi um það er breytingin á markmiðssetningunni. Hún er þó nokkur og hún er óútskýrð. Látið er líta svo út ranglega að hlutfallið af auðlindarentunni feli í sér óbreytt ástand og gefið í skyn að það sé eðlilegt. Horfið er frá því að vega hagnað fiskvinnslunnar inn í ákvörðun veiðigjalds og þannig myndast hvati fyrir útgerðirnar til að færa hagnað frekar yfir á vinnslu ef hægt er og hafa þannig áhrif á að veiðigjöldin lækki. Fasti kostnaðurinn er slump, svo eitthvað sé nefnt við þetta frumvarp sem er óásættanlegt. Við leggjumst gegn því og við hvetjum til þess að því verði vísað frá.