149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp um auðlindagjald. Ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það í nefndaráliti að þetta sé skref í rétta átt, en ég hefði viljað ganga lengra. Þegar ég segi skref í rétta átt á ég við að útreikningurinn er nær í tíma. Fiskvinnslan er tekin út og útreikningurinn er kominn til ríkisskattstjóra. Eins er tekið inn í frumvarpið að tegundir sem bera lítið gjald og eru lítið verðmætar eru teknar út fyrir sviga. Þar er miðað við 100 millj. kr. fyrir hverja tegund í verðmæti, heilt yfir. En ég hefði viljað ganga lengra og fara í 150 millj. kr. svo fleiri tegundir hefðu komið inn og brottkast myndi minnka.

Svo hefði að mínu áliti þurft að taka út klóþang. Það er yfirleitt veitt innan landhelgi, við eyjar og land.

En þetta er skref í rétta átt og ég (Forseti hringir.) greiði atkvæði samkvæmt því.