149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við afgreiðum hér algjört forgangsmál ríkisstjórnar Íslands, þ.e. lækkun veiðigjalda á útgerðir á næsta ári um allt að 5 milljarða. Þetta er forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Þetta er staðreyndin, sama hvað hæstv. ráðherrar segja, og þora um leið ekki að horfast í augu við eigin stefnu eða hugsjónir.

Það er ekki einu sinni reynt að virða stjórnarsáttmálann, þar sem ein af fyrstu ákvörðunum stjórnarsáttmálans er um sátt, um samtal. Því að allt þetta sáttatal er á forsendum ríkisstjórnarflokkanna einna.

Það er erfitt að horfa upp á þessa markvissu lækkun. Skjaldborgin sem ríkisstjórnin reisti var ekki um heimilin í landinu, hún var ekki um eldri borgara, hún var ekki um öryrkja. Skjaldborgin sem ríkisstjórn Íslands reisti var um stórútgerðina og hennar vini.

Við í Viðreisn munum greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi og sitja hjá gangvart þeim ákvæðum sem eru að einhverju leyti til til bóta. En í heildina er þetta mál mikið til vansa fyrir ríkisstjórnina alla.