149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fiskimiðin í sjónum eru sameign þjóðarinnar, eins og kemur fram í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Hér erum við að greiða atkvæði um hvaða kerfi við ætlum að nota til að innheimta sanngjarnan arð til þjóðarinnar fyrir afnot af þeirri auðlind sinni.

Það kerfi sem hér er lagt til er gagnsætt og einfalt. Það hefur þá kosti sem beðið hefur verið um lengi, að það er eins nálægt rauntíma og mögulegt er. Og það sveiflast eftir afkomu útgerðarinnar.

Það er erfitt að leggja mat á upphæð nema kannski til eins árs í senn, en af því að gjaldið mun sveiflast eftir afkomu mun þjóðin fá aukinn arð í ríkissjóð í formi hærri auðlindagjalda þegar afkoman er góð.

Ef horft er á þær aðferðir sem notaðar hafa verið síðustu ár mundu þær ýmist skila 0 kr., 2,5 milljörðum árið 2020 ef óbreytt kerfi yrði notað, eða ef kerfi vinstri stjórnarinnar frá 2012 yrði notað: 4,7 milljörðum.

Þess vegna er mjög gott að við komum á þessari afkomutengingu þannig að það verði nokkuð ljóst að þjóðin fái alltaf sanngjarnan arð fyrir (Forseti hringir.) notkun á auðlind hennar.