149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:29]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða er kveðið á um að þjóðin eigi auðlindina. Það breytir því þó ekki að alltaf eru uppi raddir sem þverskallast við og halda öðru fram og jafnvel lögfræðingar sem tala um að núverandi fyrirkomulag muni á endanum gera okkur erfitt fyrir og mynda hefðarrétt.

Einn af þeim er stærsti eigandi sennilega stærsta útgerðarfyrirtæki landsins sem sagði fyrir nokkrum dögum: Þjóðin á ekki fiskinn. Á meðan þessar raddir eru enn uppi er algjörlega óforsvaranlegt annað en að tímabinda heimildirnar í lögum. Helst þyrftum við auðvitað að drífa í því að samþykkja nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá. En við höfum þennan möguleika til þess að tala og segja hvað okkur finnst. Allir flokkar á þingi nema einn hafa tekið undir þessi sjónarmið og nú kemur að því að standa við þau orð. Ég segi já.