149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Lengi hefur verið talað um mikilvægi þess að það sé stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í sjávarútveginum. Hér er tillaga frá Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu um að reyna að búa til þann fyrirsjáanleika og þann stöðugleika með því að binda það í einhvers konar samkomulag, einhvers konar samninga sem gilda í ákveðinn tíma og þar með búa til grundvöll fyrir því að fólk geti vitað fyrir fram að ekki verði farið að krukka pólitískt í það hvernig fiskveiðiheimildum er ráðstafað.

Það er nokkuð sem ég held að allir í útgerðinni ættu að taka undir, enda myndi þetta styrkja töluvert stöðu þeirra. En auðvitað ætti líka allur þingheimur að taka undir þetta vegna þess að þetta er nokkuð sem flestir flokkar hafa talað fyrir á einn eða annan hátt í gegnum tíðina. Það er skynsamlegt að búa til einhvers konar stöðugleika, og því segi ég að sjálfsögðu já.