149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Tilvist þessara greina sýnir að viðurkennt er að gjaldið er of hátt fyrir einstaka útgerðarform og ákveðnar stærðir af félögum. Ég tel þessa grein til bóta. Þess vegna styð ég hana. En ég tel hana ekki ganga nógu langt. Hún mun aðeins hafa áhrif á allra minnstu fyrirtækin. Hún mun ekki ná til meðalstórra fyrirtækja, ég held að það sé algerlega augljóst.

Ég vil líka benda á að of hátt veiðigjald dregur úr öðrum tekjum út frá nýsköpun og þróun í greininni og afleiddum tekjum sem slíkt hefur, en ekki síst úr tekjuskatti ríkissjóðs. Þetta er spurning um hvort við ætlum að fara almenna og eðlilega leið til að innheimta gjöld af auðlindinni eða gera það á svona sérstakan og skaðlegan hátt.