149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér fjöllum við um ákvæði til bráðabirgða þar sem lagt er upp með að á næsta ári verði veiðigjaldanefnd, sú er nú starfar, ekki að störfum, ef þetta frumvarp verður að lögum. Þá er skoðuð sú aðferðafræði sem verið hefur og lögð til ákveðin krónutala á hverja tegund. Lögin sjálf koma í raun og veru ekki til framkvæmda fyrr en árið 2020.

Það er mjög undarlegt, verð ég að segja, að minni hlutinn samþykki ekki þessa tillögu því að gert var ráð fyrir því í breytingartillögum minni hlutans að innheimta á næsta ári myndi einmitt fjármagna breytingartillögur minni hlutans sem hér liggja frammi. Ég er því mjög undrandi yfir því að minni hlutinn ætli ekki að styðja þá tillögu um að við rukkum inn veiðigjald fyrir næsta ár. (Gripið fram í.)