149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágætisyfirferð og gott að fá þetta plagg í hendurnar. Við erum sammála um ýmislegt, annað ekki. Við erum sammála um meginmarkmiðin og vissulega eru mjög falleg markmið í skýrslunni sem ég deili sannarlega þótt mér finnist kannski ekki alltaf hafa verið gerð nógu vel grein fyrir þeim í nýbirtri fjármálaáætlun, þ.e. hvernig eigi að fylgja þeim eftir.

En það er ekki nóg að setja fram falleg orð. Við þurfum líka að hafa meiri metnað og mér finnst hann ekki vera til staðar hér. Ég tek undir þessi mannréttindamarkmið sem ráðherra talar um, eflingu félagslegra innviða, að stuðla að friðsælum lausnum, umhverfismálum og jafnréttismálum ekki síst, og um það á öll okkar utanríkisstefna að snúast. Það er eini staðurinn þar sem við getum raunverulega lagt eitthvað af mörkum og við getum meira að segja haft góð áhrif á friðarmál í gegnum varnarbandalög sem við tökum þátt í og ýmislegt. En hér erum við að ræða um þróunarsamvinnu.

Ég hrósa líka hæstv. ráðherra og fagna því að þessi þingsályktunartillaga, um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, hafi verið lögð inn í samráðsgátt stjórnvalda þannig að allir Íslendingar fengu tækifæri til að segja álit sitt á stefnunni. Það er ástæða til að nefna það. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt til að auka meðvitund almennings um þróunarsamvinnu og um þróun almennt í heiminum utan landsteinanna og þátttöku okkar þar á ýmsum sviðum og hvað við getum gert. Stór hluti af okkar alþjóðlegu skuldbindingum er til að ráðast gegn fátækt í heiminum. Þar finnst mér ríkisstjórnin vera fullmetnaðarlaus því að þó að krónutalan sé að hækka sem lögð er í samvinnuna með auknum þjóðartekjum, það gerist mest með þeim hætti, er hækkun á framlaginu langt frá því sem ég tel að ellefta ríkasta þjóð í heimi eigi að vera fullsæmd af. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að áform eru uppi um að þau verði 0,35% af þjóðartekjum í lok fimm ára fjármálaáætlunar og auðvitað er langt í land að við náum þeim markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem leggja þær skyldur á herðar þróuðustu og ríkustu þjóð heims — sem við erum blessunarlega — að verja 0,7% af þjóðartekjum í þróunarsamvinnu.

Ríkisstjórnin hefur einungis metnað til að ná helmingi af þessu markmiði og það er skammarlegt, finnst mér, nú þegar ágætlega árar. Jafnvel þó að blikur séu á lofti verjum við í raun sömu prósentutölu og við gerðum í miðri efnahagskreppu í þennan málaflokk. Við ættum að geta náð samkomulagi um að gera þetta betur.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Hvenær er áætlað að ná þessu 0,7% markmiði? Það kemur eiginlega hvergi fram. Það kemur að vísu fram í skjalinu að stjórnvöld styðji markmið Sameinuðu þjóðanna. En mér hefði fundist að líka mætti vera í plagginu einhvers konar tímasett áætlun um það hvenær við ætluðum að gera það og a.m.k. að taka fram að við stefnum líka að því en ekki bara að segja að við styðjum markmið Sameinuðu þjóðanna um það. Það er tvennt ólíkt.

Herra forseti. Það er gott að íslensk stjórnvöld ætli að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að draga úr viðskiptahindrunum gagnvart þróunarríkjum og bæta markaðsaðgengi þeirra. Við í Samfylkingunni erum auðvitað talsmenn efnahagslegrar samvinnu þjóða og styðjum viðskiptafrelsi en það er að því gefnu að viðskiptin séu bæði sanngjörn og heiðarleg og við þurfum alltaf að vera þar á verði. Við þurfum umfram allt að gæta að því að félagslega hliðin gleymist ekki og að þróunarsamvinnan fari alltaf fram á forsendum þeirra sem þiggja aðstoðina eins og raunar er gerð grein fyrir í þessu ágæta skjali.

Viðskiptasjónarmið mega aldrei ráða því algjörlega með hvaða hætti við veljum okkur viðfang þegar við leggjum fé af hendi innan þróunarsamvinnugeirans. Í þingsályktunartillögunni er nefnilega talað um að íslenskt atvinnulíf verði hvatt til að taka þátt í tekju- og atvinnuskapandi fjárfestingu fyrir fólk sem þarf að brjótast úr viðjum fátæktar. Það er mjög gott og ég styð það en ítreka að það er mjög mikilvægt þar eins og alls staðar annars staðar að farið sé að alþjóðlegum skuldbindingum og að réttindi launafólks, mannréttindi, kvenréttindi, og aðrir slíkir þættir séu virtir. Ég vil bara hnykkja á því þótt ég sé almennt sammála að það geti verið ágætisleið.

Ég vil einnig nefna það hér að í þingsályktunartillögunni er kveðið á um og listað upp samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir. Mér þykir augljóst að það vanti alþjóðaráð Rauða krossins sem er gríðarlega mikilvægur samstarfsaðili á þessum vettvangi. Nú kann að vera að það séu einhver mistök en mér finnst að það ætti að vera. Ég verð þó að koma einu að. Í þingsályktunartillögunni er talað um aukinn sveigjanleika í úthlutun framlaga til að bregðast við kostnaði vegna komu flóttafólks og hælisleitenda. Það er auðvitað vel hægt að gera og það er vel hægt að taka vel á móti þeim sem hér sækjast eftir vernd eða þurfa hjálp án þess að seilast í vasa þróunarframlaga eða til þess sem ætti að renna til þróunarríkja. Ég skil það, það getur verið tímabundið ástand sem gerir það að verkum að einhver stór hluti renni til þessara þátta. Það er reyndar óvenjuhátt hjá okkur Íslendingum, 36%, en á meðan við erum ekki búin að ná þessu 0,7% markmiði, á meðan við erum enn að dansa einhvers staðar í kringum 0,3% og ætlum upp í 0,35% finnst mér þetta ekki boðlegt, hæstv. ráðherra, og við þurfum að gera betur. En við hér inni erum flest samherjar þegar kemur að stóru línunum í utanríkispólitíkinni. Þó að mjög margt skilji okkur að í efnahagsumræðunni er Ísland sem betur fer friðsamt lýðræðisríki sem getur náð sameiginlegri stefnu um stóru alþjóðamálin, þ.e. að stuðla að friði, að stuðla að kvenréttindum, að stuðla að mannréttindum og slíkum hlutum.

Þetta er gríðarlega mikilvægt nú þegar við upplifum að það eru öfl, stjórnmálaleiðtogar og jafnvel almenningur, sem eru að verða áberandi í okkar heimshluta, sem eru að verða áberandi jafnvel á okkar landi, kannski einhverjir á þingi, sem hafa hag af því að draga upp svart/hvíta mynd af veröldinni. Það eru raddir sem eru háværari og háværari sem ala á fordómum, ýta undir þjóðernishyggju, vilja draga landið inn í skel og loka sig frá umheiminum, ala á tortryggni, dreifa falsfréttum og flagga svo vaxandi öfgahreyfingum annars staðar til að réttlæta málflutning sinn. Við getum alveg valið þannig heim sem byggir á flokkun og aðgreiningu þar sem við erum með öflug landamæri, þar sem hver er sjálfum sér næstur, en það er svört framtíðarsýn. Við eigum að tala fyrir framtíð sem byggist á samvinnu þar sem fólk freistar þess að taka ábyrgð hvert á öðru.

Fyrri kosturinn sem ég nefndi mun bara leiða til spennu og misskiptingar. Í seinni kostinum birtist a.m.k. von um sameiginlegt gott líf fyrir allt mannkyn. Með nýjustu tækni erum við ein risastór fjölskylda og við berum ábyrgð hvert á öðru og ég veit að þar deilum við ráðherra sýn þó að okkur kunni að greina á um hversu fast við eigum að stíga niður þegar við leggjum til framlög til þessara mála. En ég þakka ráðherra fyrir plaggið og ég veit að við munum eiga málefnalega umræðu um það í framtíðinni.