Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég sé enga ástæðu til að bíða eftir því að eiga málefnalegt samtal við hv. þingmann. Hann fór ágætlega yfir sýn sína og síns flokks á þetta og ég held, eins og hv. þingmaður nefndi, að þetta sé meiri áherslumunur en að við séum ósammála í þessu.

Af því að hv. þingmaður vísaði til ákveðinna hluta ætla ég að bæta aðeins við því sem ég kom ekki fram með í framsöguræðu minni. Hv. þingmaður vísaði í það hvernig framlögin hafa þróast, en hlutfall opinberrar þróunaraðstoðar af vergum þjóðartekjum hefur sveiflast nokkuð frá árinu 2000. Árið 2000 var það 0,1% af vergum þjóðartekjum, fór hæst í 0,36% árið 2008 en fór lægst í 0,2% 2011 þegar afleiðingar efnahagshrunsins voru hvað mestar. Ástæðan fyrir því að ekki eru sett lengri markmið er sú að við erum alltaf að miða við fimm ára áætlun eins og er lögbundið. Ef við færum upp í 0,7% væru þetta 19 milljarðar kr. á ári. Við yrðum þá að hækka framlögin um 11 milljarða. Meðalframlag DAC-ríkja var 0,31% árið 2017. Við lítum sérstaklega til Norðurlandanna, en það eru auðvitað fleiri lönd innan OECD sem við berum okkur alla jafna saman við sem eru með jafnvel hærri hlutföll, mörg hver mjög rík.

Ég er ánægður með að heyra viðhorf hv. þingmanns varðandi atvinnulífið því að ef við ætlum að hjálpa þessum löndum til að verða efnahagslega sjálfstæð þurfum við að byggja upp atvinnuvegi þeirra og það er það sem þau vilja. En bara svo það sé alveg skýrt verða þær aðgerðir sem verður farið í á þeirra forsendum. Þetta er ekki á okkar forsendum, (Forseti hringir.) en við svörum kalli þeirra um samstarf við atvinnulífið.