Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi Ísland. Ég held að það sé ágætt að við hugum að því hvað hefur gengið vel hjá okkur. Af hverju erum við komin á þennan stað? Hv. þingmaður nefndi að við værum ellefta ríkasta þjóð heims. Af hverju er það? Af því að við höfum náð að byggja upp öflugt efnahagslíf og öflugt atvinnulíf. Það er m.a. af því að við höfum aðgang að stórum mörkuðum og að okkar markaðir eru opnir. Það er ekkert öðruvísi með þessi lönd, bara ekki neitt. Þó að við séum allt annars staðar á hnettinum en þau lönd sem við erum að aðstoða gilda sömu lögmál.

Það sem við höfum fram að færa og það sem ég er ánægður með að sjá í þróunarsamvinnu almennt er að við erum líka að miðla af reynslu okkar sem er nokkuð sérstök. Þá vísa ég sérstaklega í Jarðhitaskólann og Sjávarútvegsskólann. Landgræðslan er miklu stærra mál en menn átta sig á. Við erum búin að ná miklu meiri árangri og ég tala nú ekki um jafnréttismálin. Allt þetta skiptir máli þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífs. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að jarðhitaverkefnin séu orðin meiri og meiri framleiðsla úr jarðhitavirkjunum í Kenía en á Íslandi og það er m.a. gert í samstarfi við íslenska aðila. Þegar okkur hefur tekist vel upp eigum við að reyna að miðla því, það er uppleggið í þessu og búið að vera mjög lengi. Ég held að öll þessi umræða sé góð. Ég held að hún skipti máli fyrir okkur og ég bind miklar vonir við áframhaldandi samstarf við þróunarsamvinnunefnd sem hv. þingmaður situr í. Ég held að hann sé sammála mér í því og líka bara að við gerum hvað við getum til að fræða fólk um hvað við erum að gera og af hverju. Ég held að það muni gera það að verkum að stuðningur við þróunarsamvinnu verður jafnvel (Forseti hringir.) enn meiri en núna.