149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kærar þakkir, hæstv. ráðherra. Ég er alveg viss um að við getum átt góða samleið í þessum hlutum þó að við munum eflaust togast aðeins á um hversu hratt við eigum að fara að markmiðinu.

Það er alveg rétt að Ísland hefur orðið þetta ríkt vegna þess að við höfum náð góðum tökum á efnahagslífinu. Það höfum við ekki gert hjálparlaust. Við höfum bæði verið heppin með auðlindir en við höfum líka fengið aðstoð utan frá sem margar þessara þjóða hafa kannski ekki fengið í nægjanlegum mæli enn þá og jafnvel búið enn nær í okkar samtíma við það að vera bara beinlínis beitt rányrkju af ríkustu þjóðum heims, kannski ekki okkur, en umgengni þessara þjóða við Vesturlönd er ekki búin að vera vandalaus fyrir allar þessar þjóðir. Okkur rennur líka blóðið til skyldunnar, fyrir utan það að ég trúi því, bara svo ég komi því enn einu sinni að, að það sé ávinningur alls mannkynsins að við hjálpumst að og það skulum við svo sannarlega að gera, hæstv. ráðherra, og þakka þér fyrir að leggja fram þetta ágætisplagg.