Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu. Margt athyglisvert kom fram hjá hv. þingmanni. Varðandi það sem kom fram áðan þá vil ég segja að ég lít svo á að þetta sé engan veginn einkamál ráðherrans og ekki einu sinni ráðuneytisins. Meðal annars þess vegna var málið sett í samráðsgáttina, sem þarf ekki að gera, til þess að kalla fram viðbrögð. En síðan er það náttúrlega hv. utanríkismálanefnd sem hv. þingmaður situr í og þróunarsamvinnunefnd, aðilar sem ég veit að munu koma vel inn í þetta.

En af því að hv. þingmaður nefndi loftslagsmálin, sem eru stórmál, þá hefur ráðuneytið til að mynda skuldbundið sig til að veita samtals einni milljón bandaríkjadala á árinu 2016–2020 í græna loftslagssjóðinn. Sjóðurinn fjármagnar verkefni sem miða að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og gera löndum kleift að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Sjóðurinn einblínir á lág- og millitekjuríki.

Ísland hefur sömuleiðis stutt við þróunarlönd á sviði loftslagsmála með jarðhitaleit í austanverðri Afríku, í samstarfi við Norræna þróunarsjóðinn, Alþjóðabankann og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, og stutt við orkusjóð Alþjóðabankans sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda í þróunarlöndunum.

Að lokum má nefna að Ísland hefur lagt áherslu á kynjajafnrétti á sviði loftslagsmála í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2016–2018. Í því skyni hefur Ísland til að mynda veitt framlög í sjóð sem hefur það markmið að auka hlut kvenna frá þróunarlöndunum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál og þá hefur Ísland veitt viðbótarframlag til SEforAll og UNEP, sem er eyrnamerkt verkefni á sviði kynjajafnréttis.

Það sem hv. þingmaður nefnir, og ég fer kannski betur í annað sem hv. þingmaður kom inn á áðan, um baráttu í loftslagsmálum er sumt sem við þekkjum mjög vel og getum miðlað og eigum auðvitað gera það, m.a. í gegnum þróunarsamvinnuna, en líka á fleiri sviðum.